Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frakkar kynna nýja stefnu í geimvörnum

25.07.2019 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: Franska varnarmálaráðuneytið
Frönsk stjórnvöld kynna í dag aðgerðir í geimvörnum. Emmanuel Macron, forseti landsins, hefur áður greint frá því að geimyfirstjórn hersins verði stofnuð í september.

Fyrr í mánuðinum ræddi varnarmálaráðherrann, Florence Parly, málefni geimsins á franska þinginu og sagði að markmiðið væri að fyrirbyggja og verjast árásarhneigð andstæðinga í geimnum. Hann lagði áherslu á að tilgangurinn væri ekki að beina vopnum að jörðinni heldur að vernda franska hagsmuni og gervihnetti á sporbraut um jörðina.

Undanfarið hafa helstu stórveldi heims kynnt aðgerðaráætlanir um aukin hernaðarumsvif í geimnum, meðal annars Kína, Bandaríkin og Rússland. Telja margir sérfræðingar að geimurinn sé næsti vettvangur í hernaðarmálum.

Macron greindi frá tilætlunum stjórnvalda í geimnum í ræðu á Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakka. Þar sagði hann að þetta væri aðkallandi þjóðaröryggismál.

Samkvæmt útgjaldaáætlun í hernaðarmálum fyrir árin 2019-2025 verður 3,6 milljörðum evra, sem jafngildir rúmlega 489 milljörðum króna, varið í geimvarnir. Meðal annars verða gervitungl hersins endurnýjuð og nýjum skotið á loft.