Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Frábært að fá svona hlýjar móttökur

19.01.2016 - 20:44
Mynd: RÚV / RÚV
Það var frábært að fá svona hlýjar móttökur, segja sýrlensk hjón sem komu ásamt 33 öðrum flóttamönnum til landsins í dag. Þau segjast vera þreytt en það hafi gleymst við komuna og nú hafi þau kraft til að hefja nýtt líf.

 

Vélin lenti með flóttafólkið um klukkan hálf fjögur á Keflavíkurflugvelli. Þá hafði ferðalag flóttamannanna 35 staðið í hátt í sólarhring. Hópurinn samanstendur af sex fjölskyldum, þar af eru 13 fullorðnir og 22 börn. Tveir fjölskyldur setjast að í Kópavogi og fjórar á Akureyri. Þeirra meðal eru hjónin Ibrahim Alkhatib og Fayrouz Nouh. 

„Það er stórkostlegt að sjá þessar hlýju móttökur frá forsætisráðherra og ríkisstjórn hans, frá þjóðinni og sjálfboðaliðum. Alveg stórkostlegt,“ segir Ibrahim. Kom þetta ykkur á óvart? „Svo sannarlega. Í Sýrlandi eigum við því ekki að enjast að hitta ráðamenn í eigin persónu, hvað þá að þeir sýni almenningi slíkar móttökur. En þetta kom skemmtilega á óvart hérna,“ segir Ibrahim. 

Eiginkona hans tekur undir það. „Við erum þakklát fyrir það sem þið hafið gert fyrir okkur. Við erum hamingjusöm og vonumst til að geta hafið nýtt líf með börnunum okkar. Við þökkum Íslandi fyrir,“ segir Fayrouz.

„Við vorum þreytt en þegar við sáum þetta gestrisna fólk gleymdum við því öllu. Þetta eru frábær fyrstu kynni og þau veita okkur kraft til að halda ferðinni áfram,“ segir Ibrahim.

Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, tók á móti hópnum á flugvellinum í París og flaug með þeim til Íslands.

„Auðvitað eru margar spurningar. Þau voru mjög fegin að koma hingað í dagsbirtu, þau voru búin að sjá að það væri mjög dimmt hérna. Þannig að það eru margir jákvæðir hlutir. Þeim finnst auðvitað svolítið kalt,“ segir Linda Rós. Fólkið hafi verið svo vel dúðað að þeim hafi verið ráðlagt að létta á klæðnaðinum alla vega í flugvélinni. „Þetta er mjög jákvæður hópur, þau eru mjög spennt og þetta verður virkilega skemmtileg vegferð,“ segir Linda Rós. 

 

 

 

 

Forsætisráðherra og félagsmálaráðherra stóðu fyrir stuttri móttökuathöfn í Leifsstöð. „Í dag að sjá þau koma, að sjá börnin koma, finna það að hversu tilbúin þau eru að koma til okkar. Og líka allt fólkið sem er búið að koma að undirbúningnum og síðan allt fólkið sem er að bíða eftir því að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er góður dagur,“ segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. 

„Hér er komið fólk sem er búið að ganga í gegnum miklar þrekraunir í langan tíma en er núna komið á áfangastað og maður skynjar gleði þess og það auðvitað gleður mann sjálfan líka,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Margir vildu fá að taka sjálfu af sér með þér? „Já, já, þetta hefur breiðst út víða greinilega þessi siður að taka sjálfsmyndir á síma en það er bara mjög gaman að geta gert það hér,“ segir Sigmundur Davíð 

Þórir Guðmundsson, deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík, segir að núna taki við aðlögunarferlið hjá flóttafólkinu. „Og það má segja að það sé byrjað hér með glæsilegum hætti þegar ráðamenn þjóðarinnar taka á móti þeim og þau finna fyrir mikilli velvild og hlýju og síðan tekur hversdagurinn í aðlögunarferlinu við,“ segir Þórir.

En hvenær kemur næsti hópur flóttafólks? „Við erum að vonast til þess að sá hópur sem við áttum kannski von á að kæmi núna að hann komi núna í febrúar. Síðan veit ég það að flóttamannanefndin mun í beinu framhaldi af því að huga að hópnum sem mun þá kannski koma seinna í ár, mitt ár. Við erum kannski farin að læra það líka að það er erfitt að gefa upp nákvæma dagsetningar varðandi það hvenær fólk kemur, en það kemur,“ segir Eygló. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV