Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frá Gleðibankanum til Hatara

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Frá Gleðibankanum til Hatara

14.05.2019 - 12:22

Höfundar

Hatrið mun sigra í flutningi Hatara er 32. framlag Íslendinga til Eurovision. Lögin sem hafa heillað landsmenn hafa átt misjöfnu gengi að fagna í Evrópu - framlag Íslands hefur hreppt annað sætið tvisvar en einnig staðið uppi án stiga. Fjögur síðustu ár hefur framlag Íslands ekki komist í úrslit og er það lengsta fjarvera Íslands frá því núverandi fyrirkomulag var tekið upp.

1986 - Gleðibankinn, ICY - 16. sæti

Það var þjóðhátíðarstemning þegar Ísland tók í fyrsta sinn þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þrjátíu árum eftir að keppnin hóf göngu sína. Gleðibankinn eftir Magnús Eiríksson, í flutningi Pálma Gunnarssonar, bar sigur úr býtum í forkeppni hér á landi. Áður en haldið var út fjölgaði í söngsveitinni. Eiríkur Hauksson og Helga Möller bættust við og sönghópurinn Icy varð til. Þrátt fyrir miklar væntingar urðu Íslendingar að sætta sig við sextánda sætið. Davíð Scheving Thorsteinsson sem átti sæti í íslensku dómnefndinni velktist ekki í vafa um hvað olli. „Í fyrsta lagi var hljómsveitin afspyrnuléleg og ómúsíkölsk,“ sagði hann um norsku hljómsveitina sem lék undir öllum lögum og bætti við: „Ég hef áður sagt það að mér fannst búningarnir á krökkunum hrein hörmung. ... Í einu orði voru búningarnir kauðskir og gamaldags, eins og ofskreytt rjómaterta.“

Mynd: Skjáskot / RÚV

1987 - Hægt og hljótt, Halla Margrét - 16. sæti

Mynd: Skjáskot / RÚV

1988 - Þú og þeir (Sókrates), Beathoven - 1988

Lag Sverris Stormskers sló í gegn í forkeppninni á Íslandi og flaug út með háfleygum yfirlýsingum um að nú skildi stefnt ofar en í sextánda sætið sem hafði verið hlutskipti íslensku laganna tvö fyrstu ári. Að keppni lokinni sögðu sumir að Íslendingar hefðu unnið sextánda sætið til eignar með því að hafna í því þriðja árið í röð.

Mynd: Skjáskot / RÚV

1989 - Það sem enginn sér, Daníel Ágúst - 22. sæti

Eftir að hafa setið í sama sætinu þrjú fyrstu árin urðu breytingar í fjórðu atrennu. Íslenska lagið skipaði sér í hóp þeirra laga sem luku keppni án þess að fá stig frá einni einustu þjóð. Tuttugasta og annað sæti, sem var jafnframt það neðsta, var því niðurstaðan og var reiðarslag fyrir íslenska Eurovision-aðdáendur.

Mynd: Skjáskot / RÚV

1990 - Eitt lag enn, Stjórnin - 4. sæti

Ef þunglyndið greip Íslendinga 1989 var það gleðin sem réði ríkjum 1990. Stjórnin fór út og söng eitt lag enn. Ísland fékk 124 stig, helmingi meira en samanlagðan stigafjölda fyrri framlaga landsins til Eurovision. Þetta var met í stigasöfnun Íslendinga allt til ársins 1999 og dugði til að Ísland varð í fjórða sæti.

Mynd: Skjáskot / RÚV

1991 - Draumur um Nínu, Stefán og Eyfi - 15. sæti

Mynd: Skjáskot / RÚV

1992 - Nei eða já, Heart 2 heart - 7. sæti

Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson unnu hug og hjarta þjóðarinnar með Einu lagi enn sem skilaði Íslandi í fjórða sæti. Nú stilltu þau upp nýrri hljómsveit ásamt Sigrúnu Evu Ármannsdóttur og Friðriki Karlssyni. Tveir plús tveir voru þó ekki fjórir í þessu tilfelli heldur sjö. Næst mesta stigasöfnun Íslendinga í Eurovision fram til þessa skilaði íslenska laginu í sjöunda sæti.

Mynd: Skjáskot / RÚV

1993 - Þá veistu svarið, Ingibjörg Stefánsdóttir - 13. sæti

Mynd: Skjáskot / RÚV

1994 - Nætur, Sigga Beinteins - 12. sæti

Mynd: Skjáskot / RÚV

1995 - Núna, Björgvin Halldórsson - 15. sæti

Mynd: Skjáskot / RÚV

1996 - Sjúbídú, Anna Mjöll - 13. sæti

Mynd: Eurovision / Eurovision

1997 - Minn hinsti dans, Páll Óskar - 20. sæti

Páll Óskar hristi upp í Eurovision með sviðsframkomu og klæðaburði. Það hlaut ekki náð fyrir augum dómnefnda en virtist vekja meiri lukku meðal almennings. Eftir þetta varð stutt hlé á Eurovision-þátttöku Íslendinga. Löndum hafði fjölgað og þau sem náð höfðu lökustum árangri síðustu ár voru sett í pásu. Ísland var því ekki með 1998.

Mynd: Skjáskot / RÚV

1999 - All out of luck, Selma Björns - 2. sæti

Íslendingar sneru aftur eftir ársfjarveru frá Eurovision af miklum krafti. Selma Björns flutti framlag Íslendinga og heillaði Evrópu. Hún náði besta árangri sem Íslendingar höfðu náð í Eurovision, 146 stigum og öðru sæti í keppninni. Það var aðeins hin sænska Charlotte Nilsson með lagið Take me to your heaven sem kom í veg fyrir sigur Íslands.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: DV

2000 - Tell me, Ágúst og Telma - 12. sæti

2001 - Angel, Two Tricky - 22. sæti

Birta hét sigurlagið í forkeppninni á Íslandi og Angel hét það í lokakeppninni. Þó var ekki ljóst að svo færi. Mörður Árnason beitti sér fyrir því í útvarpsráði að lagið yrði flutt á íslensku en ekki ensku í Kaupmannahöfn. Eftir þónokkrar deilur varð þó úr að lagið var sungið á ensku. Ekki virðist það þó hafa ráðið úrslitum. Það hallaði undan fæti næstu tvö árin eftir að Selma kom Íslendingum í áður óþekktar Eurovision-hæðir. Eftir 2. sætið 1999 og 12. sætið 2000 varð Angel í 22. sæti árið 2001. Lagið fékk aðeins þrjú stig, það næst versta í sögu Íslands í Eurovision, og hafnaði í neðsta sæti. Næsta ár, 2002, var Ísland ekki með - í síðasta skipti áður en núverandi fyrirkomulag með forkeppnum var tekið upp.

2003 - Open your heart, Birgitta - 8. sæti

Birgitta Haukdal varð í 8. sæti sem þá var fjórði besti árangur Íslands frá upphafi og er enn sem komið er næst besti árangur íslensks lags í Eurovision á þessari öld.

2004 - Heaven, Jónsi - 19. sæti

2005 - If I had your love, Selma - Komst ekki áfram

Selma náði hæstu hæðum Íslendinga í Eurovision með laginu All out of luck árið 1999. Sex árum síðar var hún aftur á ferð en gekk þá ekki jafn vel. Hluti þjóða þurfti að fara í gegnum forkeppni fyrir lokakvöldið. Þar lenti Ísland í 16. sæti.

2006 - Congratulations, Silvía Nótt - Komst ekki áfram

Ágústa Eva Erlendsdóttir var fulltrúi Íslands í gervi Silvíu Nætur. Þetta var ef til vill umdeildasta framlag Íslands til Eurovision þar sem yfirgengilegur karakterinn féll misjafnlega í kramið hjá fólki. Annað lagið af þremur í röð sem ekki komst áfram.

2007 - Valentine Lost, Eiríkur Hauksson - Komst ekki áfram

Tuttugu og einu ári eftir að Eiríkur Hauksson flutti frumraun Íslendinga í Eurovision með ICY sönghópnum sneri hann aftur. Þetta árið komst hann þó ekki áfram. Í millitíðinni hafði hann flutt norska lagið með sönghópnum Just 4 fun.

2008 - This is my life, Euroband - 14. sæti

Loksins sneri Ísland aftur í lokakeppni Eurovision eftir að hafa ekki komist upp úr forkeppninni úti þrjú ár í röð. Eurobandið komst áfram eftir gott gengi á undanúrslitakvöldi. Þetta var fyrsta skiptið af sjö í röð þar sem Ísland komst alltaf í lokakeppnina.

2009 - Is it true, Jóhanna Guðrún - 2. sæti

Eftir mörg mögur ár gekk loksins næstum því allt upp hjá Íslendingum. Jóhanna Guðrún vann forkeppnina á Íslandi og mætti til leiks í Moskvu undir heitinu Yohanna. Hún vann sinn riðil í forkeppninni og endaði í öðru sæti aðalkeppninnar með 218 stig. Eina sem stóð í vegi hennar var hinn norski Alexander Rybak sem vopnaður fiðlu fékk 387 af 492 mögulegum stigum syngjandi ævintýri sitt. 

2010 - Je ne sais quoi, Hera Björk - 19. sæti

2011 - Coming home, Vinir Sjonna - 20. sæti

Sigurjón Brink, tónlistarmaður og lagahöfundur, varð bráðkvaddur í janúar 2011. Sigurjón hafði átt mörg lög í söngvakeppni sjónvarpsins og þetta ár var engin undantekning. Ekkja hans og vinir tóku að sér að halda merki Sigurjóns á lofti. Lagið vann söngvakeppnina hérlendis og komst upp úr forkeppninni í Düsseldorf.

2012 - Never forget, Greta Salóme og Jónsi - 20. sæti

2013 - Ég á líf, Eyþór Ingi Gunnlaugsson - 17. sæti

Fyrsta framlag Íslendinga í Eurovision á íslensku síðan Páll Óskar fór út með lagið Minn hinsti dans árið 1997, sextán árum áður.

2014 - No prejudice, Pollapönk - 15. sæti

Síðasta lag Íslands sem komst upp úr forkeppni og var flutt í lokakeppninni í Eurovision áður en fjögur lög í röð komust ekki áfram.

2015 - Unbroken, María Ólafsdóttir - Komst ekki áfram

Í Söngvakeppni sjónvarpins 2015 var kosið á milli tveggja laga sama höfundarins, Pálma Ragnars Ásgeirssonar, um hvort kæmist áfram. Unbroken varð fyrir valinu. Það komst þó ekki áfram í aðalkeppnina og fékk aðeins fjórtán stig á sínu undanúrslitakvöldi. Það er lægsta stigatala Íslands í riðlakeppni eftir að hún var tekin upp.

2016 - Hear them calling, Greta Salóme - Komst ekki áfram

2017 - Paper, Svala - Komst ekki áfram

Svala Björgvins kom, sá og sigraði í Söngvakeppninni árið 2017 með lag sitt Paper. Hún varð því fulltrúi Íslands 22 árum eftir að Björgvin Halldórsson, faðir hennar, bar uppi merki Íslands í keppninni.

2018 - Our choice, Ari Ólafsson - Komst ekki áfram

Árið 2011 átti Þórunn Erna Clausen íslenska textann við lag Sigurjóns Brinks, manns síns, sem Vinir Sjonna fluttu í söngvakeppninni að honum látnum. Sjö árum síðar átti hún bæði lag og texta Our choice sem var framlag Íslands í Eurovision. Fjórða árið í röð komst Ísland ekki upp úr sínum riðli í undanúrslitum. Fyrsta framlag Íslands sem endaði í neðsta sæti á undanúrslitakvöldi en áður höfðu tvö íslensk lög hafnað í neðsta sæti í Eurovision áður en löndunum fjölgaði.

2019 - Hatrið mun sigra, Hatari - 

Annað framlag Íslendinga á öldinni sem flutt er á íslensku varð fyrsta íslenska lagið í fimm ár til að komast áfram úr undanúrslitum Eurovision.