1986 - Gleðibankinn, ICY - 16. sæti
Það var þjóðhátíðarstemning þegar Ísland tók í fyrsta sinn þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þrjátíu árum eftir að keppnin hóf göngu sína. Gleðibankinn eftir Magnús Eiríksson, í flutningi Pálma Gunnarssonar, bar sigur úr býtum í forkeppni hér á landi. Áður en haldið var út fjölgaði í söngsveitinni. Eiríkur Hauksson og Helga Möller bættust við og sönghópurinn Icy varð til. Þrátt fyrir miklar væntingar urðu Íslendingar að sætta sig við sextánda sætið. Davíð Scheving Thorsteinsson sem átti sæti í íslensku dómnefndinni velktist ekki í vafa um hvað olli. „Í fyrsta lagi var hljómsveitin afspyrnuléleg og ómúsíkölsk,“ sagði hann um norsku hljómsveitina sem lék undir öllum lögum og bætti við: „Ég hef áður sagt það að mér fannst búningarnir á krökkunum hrein hörmung. ... Í einu orði voru búningarnir kauðskir og gamaldags, eins og ofskreytt rjómaterta.“