Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forystukreppa Framsóknar rædd í þingflokknum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður rædd á þingflokksfundi Framsóknarflokksins klukkan eitt í dag sem boðað var til með stuttum fyrirvara. Mikil óánægja er með ástandið í forystunni innnan raða þingflokksins.

Fundur boðaður með stuttum fyrirvara

Í morgun var sent út fundarboð frá þingmönnum Framsóknarflokks vegna þingflokksfundar í hádegishléi þingsins samkvæmt dagskrá, þar sem staðan í flokknum verður rædd og þá sérstaklega sú stjórnarkreppa sem hefur myndast. Samkvæmt heimildum fréttastofu er það meirihluti þingmanna Framsóknarflokksins sem boðar til fundarins. Innan raða Framsóknar er mikil óánægja með framgöngu formannsins undanfarið og telst það lága fylgi sem flokkurinn er að mælast með í könnunum undanfarið, óviðunandi. Flokkurinn er að mælast með í kring um tíu prósenta fylgi í könnunum. 

Langvarandi titringur

Töluverður titringur hefur verið innan Framsóknarflokksins undanfarið og kom hann upp á yfirborðið á haustfundi miðstjórnar flokksins fyrr í mánuðinum, þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, tilkynnti fundargestum að hann myndi ekki verða varaformaður áfram við óbreytt ástand í forystunni. Skorað var á Sigurð Inga á fundinum að gefa kost á sér til formanns á komandi flokksþingi, sem haldið verður um næstu helgi. Þá birtust átökin einnig í því að þrír sitjandi þingmenn buðu sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni í oddvitasætið í Norðausturkjördæmi, sem Sigmundur vann með yfirburðum um síðustu helgi. Sigmundur Davíð mætir á fundinn, samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni hans. Ekki hefur fengist staðfest hvort Sigurður Ingi Jóhannsson verði á fundinum. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV