Förum ekki að stera upp alla kveníþróttamenn

Ísland fagnaði góðum og mikilvægum sigri í kvöld - Mynd: RÚV / RÚV

Förum ekki að stera upp alla kveníþróttamenn

17.05.2019 - 15:41
Íþróttir hafa í gegnum tíðina verið mjög kynjaskiptar og enn í dag sjáum við mun. Þrátt fyrir að í grunninn sé um að ræða sömu íþróttir sem kynin stunda, sömu reglur, jafn langir leikir og jafn stórir vellir þá eru „karlaíþróttir“ yfirleitt vinsælli.

Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir fjölluðu um „karla- og kvennaíþróttir“ í hlaðvarpsþættinum Allskyns. Þau veltu fyrir sér vinsældarmuninum, hvernig hægt væri að breyta viðhorfi gagnvart „kvennaíþróttum“ og hvaða ábyrgð fjölmiðlar og styrktaraðilar bera í því samhengi.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir og Bjarni Már Magnússon ræddu við Gumma og Hafdísi um rannsókn þeirra á kynjajafnrétti í íþróttum þar sem þau rannsaka raunveruleikann og hvað það er sem má betur fara. „Það sem vakti fyrir okkur var að hvernig staðan er og sjá hvað má betur fara,“ segir Margrét. „Það eru enn þá mýtur í gangi að það halli verulega á stelpur þegar kemur að æfingatímum og æfingaaðstöðu í barna- og unglingastarfi, það er til dæmis eitthvað sem við sjáum ekki, en það er allt annar veruleiki þegar við skoðum meistaraflokka, sama í hvaða íþrótt það er.“ 

epa04276298 Ante Rebic (3-R) of Croatia is sent off by referee Ravshan Irmatov (3-L) of Uzbekistan during the FIFA World Cup 2014 group A preliminary round match between Croatia and Mexico at the Arena Pernambuco in Recife, Brazil, 23 June 2014. Mexico
 Mynd: EPA

Eitt sem vakti athygli Margrétar og Bjarna snemma í rannsókninni voru greiðslur til dómara. Þannig virtist það vera svo hjá Körfuboltasambandi Íslands að dómarar fengju kerfisbundið hærra greitt fyrir karlaleik en kvennaleiki. Sömu sögu er að segja hjá Knattspyrnusambandi Íslands þar sem laun fyrir dómgæslu í fótbolta eru nánast alltaf hærri í karlaleikjum en kvenna.

Þannig fær dómari í Pepsi-deild kvenna 15 þúsund krónur fyrir hvern leik en í Pepsi-deild karla er nemur greiðslan rúmum 36 þúsund krónum. Útskýring KSÍ á þessum mismuni er sú að dómgæsla í fótbolta karla sé erfiðari en dómgæsla í fótbolta kvenna. Þar er tillit tekið til hraða leiksins, áreitis frá leikmönnum og þjálfurum og áreiti frá áhorfendum.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona og fyrrverandi knattspyrnuiðkandi, segir þetta að einhverju leiti vera rétt og að karlabolti sé vissulega í eðli sínu hraðari og þar séu meiri átök.

„Þessi umræða um líkamlega burði og getu er bara gömul. Við vitum að konur eru öðruvísi byggðar en karlar. En við þurfum sjálf að breyta okkar sjónarmiði gagnvart því af því það er ekkert að fara að breytast. Við erum ekki að fara að stera upp alla kvenníþróttamenn til að reyna að koma þeim á par við karlana, þetta er bara öðruvísi í eðlinu.“

Margrét og Bjarni nefna einnig á að um leið og er farið að benda á hlutina og vinna með þá þá er hægt að breyta þeim. Þar spila fjölmiðlar stóran part auk allra þeirra sem setja peninga í íþróttir. Það er ekki sjálfsagt að „karlaíþróttir“ séu vinsælli, fjölmiðlar og þeir sem setja peninga íþróttirnar hafa vald til að stýra áhuganum.

Í hlaðvarpinu Allskyns skoða Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir allskyns störf, skoða hvers kyns þau eru og hvort kyn skipti þar einhverju máli. Hlustaðu á þátt vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan. Hann er einnig aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum, í spilar RÚV og RÚV appinu.