Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fóru gegn sátt við Samkeppniseftirlitið

ARN
 Mynd: posturinn.is
Íslandspóstur aflaði ekki samþykkis Samkeppniseftirlitsins fyrir því að færa rekstur ePósts, dótturfélags fyrirtækisins, inn í Íslandspóst, áður en sameining félaganna kom til framkvæmda. Það braut gegn sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins frá 2017, segir í niðurstöðum eftirlitsnefndar um sáttina. Nefndin gerir annars ekki athugasemdir við sameininguna og sér ekki ástæðu til aðgerða að svo stöddu. 

Íslandspósti var skylt að leggja niður starfsemi dótturfyrirtækisins, samkvæmt sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins, segir í niðurstöðum nefndarinnar. Félag atvinnurekenda hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna niðurstöðunnar. 

Vísvitandi brotið gegn sáttinni

Félag atvinnurekenda kvartaði upphaflega yfir sameiningunni til eftirlitsnefndarinnar og taldi að Íslandspóstur hefði vísvitandi brotið gegn sáttinni.

Meðal annars var bent á að ekki hafi verið aflað samþykkis Samkeppniseftirlitsins fyrir sameiningunni. „Það hljóti að eiga að hafa einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir fyrirtækið,“ segir í tilkynningu á vef Félags atvinnurekenda.

Félagið taldi enn fremur að engin heimild væri fyrir því í sáttinni að sameina dótturfélag í taprekstri móðurfélaginu. Aðeins væri í boði að leggja starfsemina niður eða selja hana. 

Með því að sameina félögin er tap dótturfyrirtækis Íslandspósts í samkeppnisrétti „fært yfir til skattborgaranna og þeir látnir borga brúsann,“ segir í kvörtun félagsins.

Reiknuðu ekki vaxtagjöld á lán til dótturfélagsins

Engin vaxtagjöld hafi verið reiknuð á lán frá móðurfélaginu, Íslandspósti, til ePósts, segir á vef Félags atvinnurekenda. „Sú gjörð stuðlar að því að fela það tap, sem verið hefur á rekstri ePósts, en lánið nemur með vöxtum nálægt 500 milljónum króna.“ 

Eftirlitsnefndin hefur áður sagt að sterkar vísbendingar væru um að Íslandspóstur hefði brotið gegn sáttinni með því að veita dótturfyrirtækinu lán án þess að krefja það um vexti. Hins vegar hafi ePóstur haft afar takmarkaða samkeppnislega þýðingu frá því að sáttin var gerð.

Reyna að fela tap á ævintýrum í samkeppnisrekstri

„Þetta er enn ein tilraun stjórnenda Íslandspósts til að fela hversu gríðarlegum fjármunum þeir hafa tapað á ævintýrum í samkeppnisrekstri, en starfsemi ePósts hefur engu skilað,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

Ólafur hefur áður sagt að kanna þurfi hvort fyrirtækið hafi fært peninga úr einkaréttarstarfsemi yfir í samkeppnisrekstur. Það þurfi að liggja ljóst fyrir hvernig fyrirtækið noti skattpeninga og hvort peningar flæði enn á milli einkaréttar- og samkeppnisrekstrar.

Taka skyldu sína alvarlega

Í fréttatilkynningu frá Íslandspósti í fyrra kom fram að fyrirtækið teldi sig ekki hafa brotið gegn sáttinni. Pósturinn taki þá skyldu sína að framfylgja sáttinni við Samkeppniseftirlitið mjög alvarlega og leggi sig fram um að fylgja í einu og öllu þeim fyrirmælum sem þar komi fram. 

Skekkjur í kostnaðarútreikningi Ríkisendurskoðunar

Fjárhagur Íslandspósts hefur verið í miklum ólestri og fyrirtækið sætt gagnrýni, meðal annars fyrir offjárfestingu í rekstri. Pósturinn skilaði 293 milljóna króna tapi í fyrra og óskaði eftir eins og hálfs milljarðs króna neyðarláni frá ríkinu.

Eftir að Pósturinn kallaði eftir láninu var Ríkisendurskoðun falið að skoða rekstur hans og skilaði skýrslu í lok júní. Þar kemur fram að samkeppnishluti Íslandspósts greiði ekki sína hlutdeild í notkun á sameiginlegum tækjum og tólum. Það segir Póst- og fjarskiptastofnun rangt. Kostnaðarútreikningur Ríkisendurskoðunar í skýrslu um starfsemi póstsins sé skakkur. 

Eftirlitsnefndin fylgir sáttinni eftir

Eftirlitsnefndin var skipuð til að fylgja eftir sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins frá því í febrúar 2017. Nefndin tekur við kvörtunum og tekur ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar.

Nefndin er hluti af skipulagi Íslandspósts og skipuð af fyrirtækinu, með samþykki Samkeppniseftirlitsins. Tveir af þremur nefndarmönnum eru óháðir Íslandspósti.