Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forstjóri Ryanair sakaður um kynþáttahatur

22.02.2020 - 06:48
Erlent · Írland · Evrópa
epa07747010 (FILE) - A Ryanair Boeing 737-8AS lands at Riga International Airport, Latvia 15 March 2019, reissued 29 July 2019. Media reports state on 29 July 2019 that Ryanair saw its pre-tax profits fall by 24 percent in the first quarter of 2019, and said that its pre-tax profit for the three month period though to June 2019 came in at 262.3 million euros against 345.4 million euros 12 months ago.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Kanna skal bakgrunn múslímskra karlmanna áður en þeir fá að stíga um borð í flugvél, þar sem hryðjuverkamenn eru „yfirleitt múslímskir karlmenn," segir Michael O'Leary, forstjóri írska lágfargjaldaflugfélagsins Ryanair í viðtali við breska blaðið The Times, sem birtist í dag. Ummælin hafa þegar vakið hörð viðbrögð og ásakanir um kynþáttafordóma.

„Hverjir eru sprengjumennirnir?" spyr forstjórinn, þegar talið berst að öryggismálum á flugvöllum. „Þetta eru einhleypir karlmenn, einir á ferð. Ef þú ert á ferðinni með fjölskyldu, konu og börn, þá gjörðu svo vel og gakktu um borð, líkurnar á því að þú sért að fara að sprengja þau öll í loft upp eru engar.," segir O'Leary. „Þú mátt ekki segja suma hluti, af því að þá er það kallað kynþáttahatur, en þetta eru yfirleitt múslímskir karlmenn. Fyrir þrjátíu árum voru það Írar," segir forstjórinn, sem er írskur.

Khalid Mahmood, talsmaður Múslímaráðs Bretlands og þingmaður Verkamannaflokksins, sakar O'Leary um „Íslamsfóbíu" og segir hann „ýta undir kynþáttahatur." „Hvítur maður myrti átta manns í Þýskalandi í þessari viku. Eigum við að gera bakgrunnskönnun á hvítu fólki til að athuga hvort það falli í flokk fasista?" spyr Mahmood.

O'Leary er þekktur fyrir umdeildar og stuðandi yfirlýsingar. Hann hefur meðal annars viðrað hugmyndir um að rukka flugfarþega sérstaklega fyrir afnot af salerni og leggja „fituskatt“ á farþega í yfirþyngd.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV