Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forstjóri DNB lítur Samherjamálið alvarlegum augum

20.11.2019 - 16:31
epa07645118 Kerstin Braathen arrives for a press conference after Norwegian Bank DNB has appointed her as new Group's Chief Executive of DNB in Oslo, Norway, 13 June 2019. Present CEO Rune Bjerke will resign from his role on 01 September 2019, after nearly 13 years as head of DNB.  EPA-EFE/Terje Bendiksby Norway out! NORWAY OUT
Kjersting Braathen, forstjóri norska DNB bankans. Mynd: EPA - RÚV
Kjerstin Braathen, forstjóri norska bankans DNB, segist líta Samherja-málið alvarlegum augum og ekki sé hægt að útiloka að „bankinn hafi verið misnotaður.“ Þetta kemur fram í viðtali norska blaðsins Dagens Næringsliv þar sem Braathen tjáir sig í fyrsta skipti um málið.

DNB hefur verið í kastljósi fjölmiðla í Noregi eftir umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um Samherjaskjölin. 

Þar kom meðal annars fram að Kýpur-félög Samherja hjá DNB bankanum séu miðstöð reksturs Samherja erlendis og peningaflæði samstæðunnar verið stjórnað í gegnum eyjuna. Meðal annars eru greiðslur, sem kallaðar hafa verið mútur, millifærðar frá Kýpur-félögum Samherja auk þess sem fé er flutt til félaga Samherja á Íslandi. Bankinn hætti í fyrra viðskiptum við Marshall-eyjafélagið Cape Cod vegna hættu á peningaþvætti þar sem óvissa ríkti um raunverulegt eignarhald félagsins.

Braathen segir í viðtali við Dagens Næringsliv í dag að hún hafi fyrst fengið veður af málinu þar sem hún var stödd í Singapúr. Þar hafi Siv Jensen, fjármálaráðherra, einnig verið og þær rætt málið. 

Braathen viðurkennir að málið sé alvarlegt, bæði fyrir bankann og Samherja. Hún segir þó að það sé ekki bankinn sem sé grunaður um refsivert athæfi heldur útgerðarfyrirtæki á Íslandi. „Það er ekki gott þegar viðskiptavinur DNB er grunaður um refsiverða háttsemi.“ Það sem bankinn geti gert sé að veita upplýsingar sem varpi ljósi á málið en að öðru leyti sé rannsókn málsins í höndum lögreglunnar.

Braathen er stödd í Lundúnum þar sem hún ávarpaði ráðstefnu á vegum bankans. Dagens Næringsliv segir að spurningar ráðstefnugesta hafi flestar snúist um Samherjamálið og viðbrögð bankans. „Baráttunni gegn efnahagsbrotum lýkur aldrei. Þetta mál er alvarlegt og við getum ekki útilokað að við höfum verið misnotuð. Þess vegna verðum við að fá allar upplýsingar fram.“

Braathen vildi ekki tjá sig efnislega um mál Samherja og sagðist ekki getað svarað neinum beinum spurningum um viðskipti útgerðarfélagsins og bankans.  Bankinn myndi eftir sem áður aðstoða við rannsókn málsins en ómögulegt væri að segja til um hvort bankinn sjálfur yrði rannsakaður.

Stjórn DNB hefur þegar kallað eftir innanhússrannsókn vegna Samherja-málsins og fjármálaráðherra Noregs hefur sagt að bankinn verði að leggja öll spilin á borðið. Þá vakti athygli þegar Stundin og Dagens Næringsliv greindu frá því að yfirmaður peningaþvættisdeildar bankans hefði sagt upp störfum í haust.  Þótt bankinn hafi sagt að yfirmaðurinn hafi sjálfur sagt upp störfum vegna skipulagsbreytinga tengdu flestir fjölmiðlar í Noregi starfslokin við Samherjamálið.