Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forstjóraskipti hjá PCC á Bakka

19.03.2019 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Jökull Gunnarsson, sem var ráðinn forstjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka síðasta haust, hefur sagt starfi sínu lausu. Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri hjá TDK, tekur við starfinu í apríl.

Tilkynnt var um þessar breytingar á starfsmannafundi á Bakka í dag. Jökull segir í samtali við fréttastofu að persónulegar ástæður séu fyrir ákvörðuninni og að hann hafi ákveðið að flytja aftur heim á suðvesturhornið. 

Þriðji forstjórinn frá gangsetningu

Hafsteinn Viktorsson lét af störfum sem forstjóri í september en hann hafði leitt byggingu og gangsetningu kísilverksmiðjunnar. Jökull tók þá við starfinu, en hann starfaði áður sem framleiðslustjóri. 

Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá TDK á Akureyri, áður Becromal, tekur við forstjórastarfinu. Hann segist í samtali við fréttastofu hefja störf í apríl. „Þetta leggst bara prýðilega í mig, margar áskoranir framundan en áhugavert verkefni,“ segir Rúnar.

Vandamál ekki ástæða uppsagnar

Ýmsar bilanir og vandræði hafa gert mönnum erfitt fyrir frá því verksmiðjan var gangsett síðasta vor. Illa hefur gengið að halda báðum ofnum í stöðugum rekstri. Neyðarskorsteinar hafa opnast nokkrum sinnum og reykur og lykt borist frá verksmiðjunni. Veturinn hefur reynst erfiður, snjór og kuldi hefur gert að verkum að hráefni hefur frosið í tækjum. 

Jökull segir að þessi vandræði séu ekki ástæða þess að hann láti af störfum. Hann verður nýjum forstjóra innan handar fram á sumar en hættir svo að óbreyttu alfarið störfum hjá fyrirtækinu.

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV