Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forsetinn vill tillögur gegn spillingu í sjávarútvegi

24.11.2019 - 12:24
epa07820544 President of Namibia Hage Geingob attends a plenary session of the World Economic Forum on Africa (WEF) titled Africa: Rising Continent in a Fractured World at the Cape Town International Convention Centre, in Cape Town, South Africa, 05 September 2019. The World Economic Forum on Africa runs from 04 to 06 September 2019.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
Hage Geingob, forseti Namibíu. Mynd: NIC BOTHMA - EPA
Forseti Namibíu hefur falið starfandi sjávarútvegsráðherra landsins að endurskoða stjórnun fiskiauðlinda og koma með tillögur að því hvernig koma megi í veg fyrir spillingu og frændhygli. Frá þessu greindi forsetinn á kosningafundi Swapo-flokksins í gær, þeim síðasta sem flokkurinn heldur fyrir kosningar á miðvikudag. 

Vill úttekt á ríkisútgerð og ráðuneyti

Hage Geingob, forseti Namibíu, tilkynnti í gær að hann hafi falið starfandi sjávarútvegsráðherra, Albert Kawana, að gera úttekt á starfsháttum og stjórnsýslu þegar kemur að fiskiauðlindum. Að því loknu vill forsetinn að sjávarútvegsráðherrann komi með tillögur að því hvernig megi koma í veg fyrir spillingu, frændahyglingu og óstjórn. Þá hefur forsetinn einnig falið ráðherranum að fara yfir stjórnsýslu innan sjávarútvegsráðuneytisins og ríkisútgerðarinnar FishCor, síðasta áratuginn, með það að markmiði að gera tillögur að úrbótum. Namibíska blaðið The Namibien greinir frá þessu.

Fyrrum ráðherrar handteknir í gær

Samherjamálið hefur skekið namibískt samfélag, síðan Kveikur og Stundin fjölluðu á dögunum um ætlaðar mútugreiðslur Samherja til namibískra stjórnmála- og áhrifamanna. Bæði sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra hafa sagt af sér og í gær var sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi handtekinn og lögregla leitar dómsmálaráðherrans fyrrverandi, auk fleiri sem málinu tengjast.

Forsetinn segist skilja reiði fólks

Namibíumenn ganga til forseta- og þingkosninga á miðvikudag. Namibíska sjónvarpsstöðin NBC greinir frá því að forsetinn hafi sagt á kosningafundinum í Windhoek í gær að hann skilji vel reiði fólks vegna Samherjamálsins, spilling valdi því að það hrikti í stoðum samfélagsins. Forsetinn gagnrýndi innlenda og erlenda fjölmiðla og sagði að þeir hafi ráðist á Namibíumenn, og þá sérstaklega stjórnarflokkinn Swapo, með því að upplýsa aðeins um þá sem sagðir eru hafa þegið mútur í namibískum sjávarútvegi en tala ekki um hvaðan peningarnir komu. Íslendingar ættu að rannsaka spillingu í eigin landi, sagði forsetinn.