Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Forseti Kasakstans segir af sér

19.03.2019 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Nursultan Nazarbayev, forseti Kasakstans, tilkynnti óvænt í dag í beinni sjónvarpsútsendinu, að hann hygðist láta af embætti. Nazarbayev hefur verið við völd í 29 ár frá því að Kasakstan hlaut sjálfstæði frá Sovétríkjunum í apríl 1990. Hann var síðast endurkjörinn árið 2015 með tæplega 98 prósentum atkvæða.

Nazarbayev hefur til þessa ekki tilnefnt eftirmann sinn. Hann verður þó ekki valdalaus eftir að hann lætur af embætti. Samkvæmt stjórnarskrá Kasakstans er hann leiðtogi þjóðarinnar og verður yfirmaður öryggisráðsins til æviloka.

Nazarbayev hefur iðulega á stjórnmálaferli sínum verið sakaður um mannréttindabrot og þótt sýna ótilhlýðilegt  harðræði við landsstjórnina. Kasakar hafa á undanförnum árum gagnrýnt stjórnunarhætti forsetans í æ ríkari mæli. Olíuvinnsla er í blóma í landinu. Efnahagur ríkisins fékk skell árið 2014 þegar olíuverð féll, en hefur verið á hægri uppleið síðan.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV