Forseti Íslands: „Sigur tónlistarlífs á Íslandi“

Mynd: Samsett mynd / RÚV

Forseti Íslands: „Sigur tónlistarlífs á Íslandi“

10.02.2020 - 09:36

Höfundar

„Til hamingju Hildur, til hamingju Ísland. Við hljótum öll að vera stolt af velgengni landa okkar á erlendri grundu. Og Óskarsstyttan er bara síðasta viðbótin í safn margra gripa sem Hildur hefur safnað að sér verðskuldað á síðustu árum og megi henni bara ganga áfram sem allra best,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, um Óskarsverðlaunin sem Hildur Guðnadóttir tónskáld vann í nótt. Forsetinn segir að verðlaunin séu meðal annars áminning um mikilvægi öflugrar tónlistarkennslu.

Guðni segir ljóst að verðlaunin geti skipt sköpum fyrir Hildi.

„Ég held að það liggi í augum uppi að hún getur áfram sinnt sinni ástríðu, að semja tónlist. Og þeim mun fjölga, tilboðunum sem hún fær. Og það er alveg frábært að fylgjast með manneskju sem ákvað að láta reyna á það að sinna því sem hugurinn stóð til. Ég minnist viðtals við móður hennar, sem var nú lengi hérna á útvarpinu, þar sem hún var að lýsa því að Hildur var dálítið óviss eftir stúdentspróf hvað hún ætti að gera, hvort hún ætti að þora að einbeita sér að tónlistinni. Hvort það væri hægt að lifa af tónlistinni. Og blessunarlega voru ráðin sem hún fékk á þá leið að láta reyna á það og sjá svo til. Og nú vitum við hverjar lyktir þeirrar sögu urðu.“

Laun erfiðisins

Í ræðu sinni hvatti hún konur í tónlist til dáða, eru þetta mikilvæg skilaboð?

„Að sjálfsögðu. Og Hildur hefur ekki aðeins skrifað sig inn í Íslandssöguna, hún skrifaði sig inn í fjölskyldusöguna líka. Amma hennar, Margrét Guðnadóttir, var fyrsti kvenprófessorinn við Háskóla Íslands og þá fyrsti kvenprófessorinn á Íslandi. Svona afrek hljóta að vera hvatning til allra, ungra sem aldinna, kvenna sem karla, að það er samhengi milli þess að gera það sem sannfæringin kallar á, og samhengi milli þess að leggja hart að sér og uppskera. Auðvitað er engin tilviljun að Hildur nær þessum árangri. Þetta hefur örugglega verið erfitt stundum. Örugglega hafa komið þær stundir að hún hefur hugsað með sér: „Nú vil ég gera eitthvað allt, allt annað en að einbeita mér að tónsmíðunum.“ Og kannski hefur hún gert það. En að ná að tengja svona saman náttúrulega hæfileika og elju og svo laun erfiðisins, það er það fallega við þetta. Og líka eitt enn: Auðvitað er þetta heiður Hildar. Og þetta er afrek Hildar. En þetta er líka afrek þeirra sem standa henni næst og þykist ég vita að hún sé mér sammála; dæmi þess að við erum að gera vel þegar kemur að tónlistarkennslu á Íslandi. Við höfum öfluga tónlistarskóla, og þurfum að halda þeim öflugum áfram, það eru tónlistarskólar út um allt land. Í fyrradag var dagur tónlistarskólanna og maður sá litla krakka blásandi í lúðra og túbur og saxófóna og leikandi á fiðlur og píanó. Auðvitað verða ekki allir snillingar, auðvitað fá ekki allir Óskarinn, en þetta gefur góðan grunn. Og tónlistarnám er gott fyrir aga, gott fyrir sjálfstraust, gott fyrir samkennd og samvinnu. Þannig að þetta er líka sigur tónlistarlífs á Íslandi.“

Hvorki Joker né Brot

Vaktir þú sjálfur í nótt yfir Óskarnum?

„Nei ég gerði það einmitt ekki. Ég vaknaði um fjögur til þess að vita hvernig hefði farið en lagðist svo aftur til hvílu. Og varð auðvitað virkilega glaður að sjá á símanum hver úrslitin höfðu orðið.“

En ertu búinn að sjá Joker?

„Ég er ekki búinn að sjá myndina en ég er einn af mörgum milljónum sem eru á Spotify og njóta tónlistarinnar. Auðvitað tala saman tónn og mynd í bíómyndinni en tónsmíðarnar njóta sín einar og sér. Þetta eru magnaðar tónsmíðar, hvernig þær vaxa og vaxa og maður sér fyrir sér drungann í kringum þennan karakter sem missir smám saman vitið. Þannig að ég á myndina eftir. Ég á líka eftir að horfa á síðasta þáttinn af Broti. Þannig að það má enginn segja mér hvernig það fer,“ segir forsetinn í léttum dúr.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Við erum öll að springa úr stolti í dag“

Kvikmyndir

Hildur um sigurinn: Þetta var býsna brjálað augnablik

Menntamálaráðherra sendir Hildi hamingjuóskir

Menningarefni

Hildur vann Óskarinn fyrst Íslendinga