Forseti Indlands heimsækir Ísland

06.09.2019 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Shri Ram Nath Kovind, forseti Indlands, og Savita Kovind forsetafrú koma í opinbera heimsókn til Íslands í næstu viku. Þetta er fyrsta heimsókn forsetans til norræns ríkis, segir T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi. Dagskrá forsetahjónanna er þétt skipuð.

Tekið verður á móti forsetahjónunum á Bessastöðum á þriðjudagsmorgun. Forsetar Íslands og Indlands funda að móttöku lokinni. Í kjölfar þess verða undirrituð samkomulög milli ráðuneyta landanna að forsetunum viðstöddum. Þeir ávarpa svo fjölmiðla. Á meðan forseti Indlands heimsækir höfuðstöðvar Marels, skoðar forsetafrúin umhverfisvæna grænmetisræktun hjá Lambhaga og fræðist um starfsemi Mjólkursamsölunnar. Forseti og forsetafrú Íslands bjóða svo gestunum til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum. 

Á miðvikudaginn skoða forsetahjón Indlands þjóðgarðinn á Þingvöllum og sitja svo hádegisverð í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Gert er ráð fyrir að forsetahjónin komi til landsins á mánudaginn og haldi af landi brott á miðvikudag. 

Indland og Ísland fyrir græna plánetu

Forseti Indlands flytur fyrirlestur á þriðjudag í Háskóla Íslands um áherslu Indlands og Íslands á umhverfismál. Fyrirlesturinn hefst klukkan tólf og er opinn almenningi. Yfirskriftin er „Indland og Ísland fyrir græna plánetu.“ 

Styrkir samskipti og tengsl ríkjanna að hafa hér sendiráð 

T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi, staðfestir að þetta sé í fyrsta sinn sem forsetinn heimsæki norrænt ríki. Kovind hafi verið kosinn forseti fyrir tveimur árum. Hann segir að Abdul Kalam, þáverandi Indlandsforseti hafi sótt Ísland heim árið 2005. Þá hafi hins vegar ekki verið komið indverskt sendiráð hér á landi. Það styrkir samskipti og tengsl ríkjanna að hafa hér sendiráð, segir hann. 

Kovind gegnt embætti forseta í tvö ár

Kovind var kjörinn forseti Indlands árið 2017 og er fjórtándi forseti landsins. Hann var ríkisstjóri í héraðinu Bihar 2015-2017 og þingmaður í efri deild indverska þingsins á árunum 1994-2006. Forsetinn er lögfræðingur að mennt og starfaði sem slíkur í sextán ár áður en hann hóf afskipti af stjórnmálum fyrir aldarfjórðungi. Forsetahjónin hafa verið gift í 45 ár. Þau eiga tvö börn. 

Segja stjórnvöld nota ofbeldi kerfisbundið

Íbúar í Kasmír á Indlandi segja indverska herinn hafa beitt grófu ofbeldi og pyntingum. Tvenn félagasamtök birtu nýlega sameiginlega ítarlega skýrslu um pyntingar í Kasmír allt frá árinu 1990. Í skýrslunni eru viðtöl við yfir fjögur hundruð manns sem segjast hafa verið beittir margvíslegum pyntingum. Niðurstaða skýrslunnar er að indversk stjórnvöld noti pyntingar til þess að berja niður mótstöðu í héraðinu. Indversk stjórnvöld vísa ásökununum algjörlega á bug. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um það hvort ástandið í Kasmír verður rætt á fundinum. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi