Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forseti ekki frú, „að minnsta kosti ekki ennþá“

12.11.2019 - 16:45
Mynd: RÚV / RÚV
„Forseti vill benda háttvirtum þingmanni á að hann er ekki frú, að minnsta kosti ekki ennþá,“ sagði Brynjar Níelsson, forseti Alþingis, og sló á létta strengi við Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingar, sem hafði ávarpað hann frú seint í flutningi sínum á nefndaráliti 1.minnihluta í annarri umræðu um fjárlög síðdegis. Ágúst hafði þá ekki tekið eftir því að Brynjar hafði tekið sæti í stól forseta í stað Bryndísar Haraldsdóttur sem hafði setið þar bróðurpartinn af ræðunni.

Umræðan stendur enn á Alþingi um fjárlögin og þar hefur meðal annars verið tekist á um hvort veiðigjöldin skili ríkissjóði miklu eða litlu.

Minnihlutinn heldur því fram að veiðigjöldin gætu verið meiri og Ágúst Ólafur sagði í sinni ræðu að á það hefði verið bent þegar breytingar á þeim voru samþykktar í fyrra. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, lagði hins vegar áherslu á að veiðigjöldin skiluðu ríkissjóði fimm milljörðum króna en hefðu skilað tveimur milljörðum ef eldri lög hefðu gilt, þar sem ekki hafi verið tekið jafn mikið tillit til afkomu og fjárfestinga. Veiðigjöldin voru rúmir ellefu milljarðar í fyrra. 

100 milljarðar í arðgreiðslur á níu árum

Ágúst Ólafur sagði það fátækleg rök að veiðigjaldið hefði verið lægra við óbreytt lög. Arðgreiðslur í sjávarútvegi á árinu 2018 hafi verið yfir tólf milljarðar og frá árinu 2010 um 100 milljarðar króna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kalli þessi ár gullaldarár í íslenskum sjávarútvegi. Íslenskur almenningur, sem eigi auðlindina, hefði hins vegar verið hlunnfarinn. Hagur sjávarútvegsins hafi batnað um 450 milljarða króna á einum áratug og veiðileyfagjaldið, sem sé gjald fyrir að veiða sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sé lítill hlut þess hagnaðar. Þá sagði Ágúst Ólafur það hafa verið upplýsandi að fjármálaráðherra hefði legið á að afnema stimpilgjöld á kaupum á stórum skipum sem komi sér vel fyrir útgerðina á meðan almenningur þurfi enn að greiða stimpilgjöld af fasteignakaupum. 

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, lýsti áhyggjum af því að ekki væri gefið nóg svigrúm í fjárlögum fyrir óvissu. Enn sé óljóst hversu djúp niðursveiflan verði. „Enn erum við í mikilli óvissu um þróun efnahagsmála en ríkisstjórnin ætlar sér að leggja hér fram fjárlög með halla upp á 0,3-0,4 prósent af landsframleiðslu sem nýtir nær allt það svigrúm sem ríkisfjármálin hafa samkvæmt fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.“  Willum Þór sagði að gert væri ráð fyrir sveigjanleika sem geti tekið á óvissu.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins lýsti áhyggjum af fjárhagsstöðu Landspítalans og þeim mönnunarvanda sem þar væri.  Hann ræddi þetta síðan frekar þegar hann mælti fyrir nefndaráliti annars meirihluta í fjárlaganefnd. 

Telur stóran hluta illa svikinn 

Ágúst Ólafur segir að margt í frumvarpinu megi fara betur þó margt af því sé gott. Samfylkingin sé með hógværar tillögur til bóta og hvernig ríkið geti aflað tekna sé vilji til þess. Ákveðnir hópar séu enn skildir eftir; barnafólk, milli- og lágtekjufólk, öryrkja, aldraða og skólafólk. „Og í rauninni er stór hluti almennings illa svikinn af þessu frumvarpi. Ég veit mæta vel að hér er ekki hægt að gera allt fyrir alla, en hér er svo sannarlega hægt að gera aðeins meira.“