Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forseti Bólivíu segir af sér

10.11.2019 - 21:51
Mynd með færslu
Evo Morales, forseti Bólivíu. Mynd: EPA - EFE / BOLIVIAN NEWS AGENCY
Evo Morales forseti Bólivíu sagði af sér embætti í kvöld, þremur vikum eftir að hann var endurkjörinn. Hann hefur verið sakaður um að svindl í síðustu kosningum. Morales ákvað að víkja eftir að herinn og lögreglan hættu stuðningi við hann.

Mikil fagnaðarlæti urðu á götum höfuðborgarinnar La Paz eftir að Morales tilkynnti um afsögnina. Hann hefur setið í embætti forseta frá árinu 2006, og bauð sig fram til síns fjórða kjörtímabils í ár eftir að hæstiréttur féllst á að breyta stjórnarskránni. Áður máttu forsetar sitja mest í þrjú kjörtímabil. Morales var lýstur sigurvegari að lokinni talningu, en margir töldu maðk í mysu kjörstjórnar eftir mikla breytingu á fylgismun Moraels og helsta keppinauti hans þegar síðustu atkvæðin voru talin.

Samtök Ameríkuríkja gerðu úttekt á kosningunum og birtu niðurstöður hennar í dag. Þar kom fram að óregla var í nánast öllum þáttum í framkvæmd kosninganna. Almenningur hélt mótmælum áfram á götum stærstu borga landsins. Morales ákvað að boða til nýrra kosninga, en það dugði ekki til að sefa reiði fólksins. Það var ekki fyrr en herinn og lögreglan sameinaðist mótmælendum og kallaði eftir afsögn Morales að hann lét segjast.

Morales tilkynnti afsögnina eftir að hafa flogið til Chimore héraðs í miðri Bólivíu. Þar hófst stjórnmálaferill hans á níunda áratugnum, þar sem hann var verkalýðsleiðtogi kókabónda. Árið 2006 varð hann fyrsti forsetinn af ættum frumbyggja í Bólivíu til að gegna embættinu.

Enginn með forsetavald

Varaforsetinn Alvaro Garcia Linera sagði starfi sínu einnig lausu. Hann hefði átt að taka við embættinu af Morales, og þeir tveir næstu í röðinni, forseti öldungadeildar þingsins og þingforseti neðri deildar þingsins, hættu einnig í dag. AFP hefur eftir Williams Bascope, stjórnarskrárlögmanni, að þingmenn verði að hafa hraðar hendur við að kjósa nýja þingforseta, sem taki þá við völdum.

Formaður kjörstjórnar handtekinn

Morales lét ekki ógert að gagnrýna úttekt samtaka Ameríkuríkja. Hann sagði niðurstöðu þeirra pólitíska og starfsmenn samtakanna hafi þjónað hagsmunum ákveðinna valdastétta. Lögreglan í Bólivíu tilkynnti svo í kvöld að Maria Eugenia Choque, formaður kjörstjórnar í Bólivíu, hafi verið handtekin. 

Tveir leiðtogar nágrannaríkja hafa þegar lýst yfir stuðningi við Morales og saka stjórnarandstæðinga um valdarán. Stjórnvöld í Kólumbíu kölluðu eftir skyndifundi samtaka Ameríkuríkja til að leita lausna á þeirri flóknu stöðu sem nú er komin upp í Bólivíu.

Utanríkisráðherra Mexíkó bauð Morales í kvöld að leita skjóls í landinu. Sjálfur segist Morales ekki þurfa að flýja neitt. Hann hafi engu stolið.