Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forseti Alsírs boðar afsögn

01.04.2019 - 17:45
Erlent · Afríka · Alsír · Stjórnmál
epa04169935 Algerian President Abdelaziz Bouteflika (L), who is seeking a fourth term, casts his ballot paper at a polling station in Algiers, Algeria, 17 April 2014. Bouteflika arrived in a wheelchair at a school in the capital where he cast his ballot. The 77-year-old incumbent, who has uttered only a few sentences in public since suffering a stroke last year, was accompanied to the polling station by his brother Said, who acts as his special adviser.  EPA/MOHAMED MESSARA
Bouteflika greiðir atkvæði í þingkosningum 2014. Mynd: EPA
Abdelaziz Bouteflika boðar að hann láti af forsetaembætti í Alsír áður en skipunartími hans rennur út í lok þessa mánaðar. Landsmenn hafa krafist þess að undanförnu að forsetinn víki úr embætti og yfirmaður herráðsins mælst til þess að hann verði settur af vegna vanheilsu.

Forsetaskrifstofan í Algeirsborg tilkynnti í dag áform hins aldna forseta. Þar sagði að hann ætlaði að tryggja að allar stofnanir ríkisins störfuðu eðlilega meðan valdaskiptin færu fram. Fjórða kjörtímabil Bouteflika rennur út 28. apríl. Samkvæmt tilkynningunni ætlar hann að láta af embætti áður en að því kemur.

Mótmæli frá því í febrúar

Til stóð að forsetakosningar færu fram í Alsír í þessum mánuði. Þegar forsetinn tilkynnti í febrúar að hann ætlaði sér að vera við völd eitt kjörtímabilið enn  - hið fimmta - þótti mörgum komið nóg. Mótmælafundir hafa verið haldnir linnulaust þar sem afsagnar hans er krafist. Gilti einu þótt hann hætti við framboðið. Hann hugðist reyndar sitja lengur en til 28. apríl. Í gær var tilkynnt að skipt hefði verið um 21 af 27 ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það sló ekki á óánægjuraddirnar.

Fékk heilablóðfall 2013

Bouteflika hefur átt við vanheilsu að stríða allt frá því að hann fékk heilablóðfall árið 2013. Hann hefur alla tíð notið stuðnings alsírska hersins. Það kom því á óvart á dögunum þegar yfirmaður herráðsins lagði til að beitt yrði því ákvæði stjórnarskrár landsins sem kveður á um að hægt sé að setja forsetann af ef hann er of veikur til að stjórna landinu. Það taldi yfirmaður herráðsins að væri eina leiðin til að lægja óánægjuöldurnar í landinu.