Forsetakosningar 27. júní ef Guðni fær mótframboð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann sækist eftir því að sitja áfram sem forseti á Bessastöðum næstu fjögur ár. Forsetakosningar verða haldnar 27. júní ef Guðni fær mótframboð.

Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 35 ára aldri og eru með lögheimili á Íslandi geta boðið sig fram. Til þess að framboðið sé gilt þarf frambjóðandi að skila dómsmálaráðuneytinu meðmælum og vottorðum yfirkjörstjórna um að hann sé kosningabær 23. maí, fimm vikum fyrir kjördag.

Fjöldi meðmæla sem þarf að skila er breytilegur í hlutfalli við fjölda fólks á kjörskrá. Lögum samkvæmt er fjöldi meðmælenda sem hver frambjóðandi þarf að skila úr hverjum landsfjórðungi auglýstur í útvarpi og í Lögbirgingablaðinu þremur mánuðum fyrir kjördag.

Sjaldgæft er að frambjóðendur láti á sér kræla fyrr en um tveir mánuðir eru liðnir af nýju kosningaári. Sitjandi forsetar hafa þó tilkynnt í nýársávarpi hvort þeir vilji gegna embættinu áfram og bjóða sig fram.

Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti sjálfur ekki um framboð sitt fyrr en 5. maí 2016. Þá hafði Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, enn ekki sagt hvort hann ætlaði bjóða sig fram í sjötta sinn. Hann afréð svo að fara fram með tilkynningu 9. maí.

Allir setið lengur en eitt kjörtímabil

Öll þau sem gengt hafa embætti hafa sóst eftir endurkjöri og fengið að sitja lengur en eitt kjörtímabil. Það er fyrir utan Guðna sem sækist nú eftir að sitja sitt annað kjörtímabil.

Sveinn Björnsson var fyrsti forseti lýðveldisins, kjörinn af Alþingi 1944 og þjóðkjörinn ári síðar. Hann var sjálfkjörinn 1949 og lést í embætti 1952, ári áður en seinna kjörtímabili hans lauk. Ásgeir Ásgeirsson var þá kjörinn í forsetakosningum. Hann sat fjögur kjörtímabil og fékk aldrei mótframboð. Enginn bauð sig fram gegn Kristjáni Eldjárn eftir að hann var kjörinn 1968.

Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti 1980. Enginn bauð sig fram gegn henni eftir fyrsta kjörtímabilið. Hún fékk svo mótframboð að tveimur kjörtímabilum liðnum árið 1988 en var sjálfkjörin 1992.

Ólafur Ragnar Grímsson tók við embættinu eftir kosningarnar 1996 og varð þaulsetnasti forsetinn; Hann sat í fimm kjörtímabil eða þar til Guðni var kjörinn 2016. Ólafur Ragnar var sjálfkjörinn í tvígang, árið 2000 og 2008.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi