Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forsetahjónin í sýnatöku: Verum góð hvert við annað

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Verum góð hvert við annað og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að samkomubannið gangi upp. Þetta sögðu forsetahjónin sem fóru í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Sextán þúsund manns hafa skráð sig í skimun eftir kórónaveiru.

Stranglega bannað að fara í sýnatöku í sóttkví

Hægt er að taka á móti eitt þúsund manns á dag hjá Íslenskri erfðagreiningu í Turninum í Kópavogi. Fimmtíu starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar búnir nauðsynlegum hlífðarbúnaði vinna við sýnatökuna. 

„Mér finnst þetta ótrúlega spennandi. Og gaman sjá hvað þeim finnst gaman að gera þetta og hvað þau eru reiðubúin til þess að leggja á sig,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. 

Svör verða komin innan 48 klukkustunda frá því sýni er tekið. Allir geta skráð sig á netinu en fólk í sóttkví má alls ekki fara í sýnatöku. 

„Það væri ekki bara brot á lögum, það væri glæpur gegn þessu samfélagi. Og eitt er víst að við komum til með að fylgjast með því grannt,“ segir Kári. 

Snýst allt um að verja þá veikustu

Þau Guðni Jóhannesson og Eliza Reid mættu í dag. Samkomubannið leggst ágætlega í forsetahjónin.

„Það er svo brýnt núna þegar við erum að stíga inn í þennan fasa varnaraðgerðanna að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að þetta gangi upp. Við hlýðum öllum tilmælum og fyrirmælum. Og að við sjáum til þess að þeir sem eru veikastir fyrir, þeir sem við þurfum virkilega að verja að það séu þeir sem verði í hvað bestri stöðu. Þetta snýst allt um það núna,“ segir Guðni. 

„Og reynum bara að vera góð við hvort annað. Reynum að hrósa fólk og þakka fólk fyrir það sem er gert og brosa og bara reyna að dreifa og smita aðeins eins jákvæðu lofti og anda eins og við getum,“ segir Eliza. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV