Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Forsetahjónin aðstoðuðu við matardreifingu

22.12.2015 - 19:14
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands segir að honum sé það óskiljanlegt að hér á landi skuli ekki allir geta haldið mannsæmandi jólahátíð en þurfi að reiða sig á matargjafir og aðra aðstoð. Aldraðir og öryrkjar eigi ekki að þurfa að bíða í röð úti í kuldanum eftir aðstoð. Forsetahjónin aðstoðuðu við matardreifingu í dag.

„Ég er bara að fá mat fyrir jólin því að ég á bara engan pening fyrir mat.,“ segir Stefanía Margrét Ágústsdóttir öryrki. „Og hvað á ég að gera, ég er bara ekki búin að lifa á neinu í tvær vikur frá því að síðast að ég kom hingað. Ég fékk að taka út fyrirfram fyrir janúar til að geta allavega keypt mjólk og kartöflur og tvær máltíðir og nú er ég komin hingað til að fá jólamatinn því að ég á ekki neitt og engan pening eða neitt.“

Stefanía lýsir ánægju sinni með að forsetahjónin heimsæki Fjölskylduhjálpina.  „Mér finnst það bara frábært, bara æðislegt, ég bjóst ekki við því, bara vá en gaman. Ég verð að taka í hendina á honum og henni, en yndislegt fólk.“

„Það eru 350 einstaklingar og fjölskyldur sem sækja mataraðstoð í dag en eftir klukkan sex ætla ég að veita þeim sem ekki náðu að skrá sig þann þriðja og fjórða og það eru jafnvel hundrað fjölskyldur í viðbót,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ. „Og ég segi við fólkið sem vill helst ekki koma að hann það ekki að skammast sín því þetta þjóðarinnar skömm en ekki þeirra.“

Óskiljanlegt að ekki sé hægt að tryggja að allir geti haldið hátíð

„Satt að segja er mér það óskiljanlegt að í svona litlu landi með svona öflugar og margþættar stofnanir og alla þessa umræðu um velferðina og samhjálpina skuli okkur ekki takast að skipuleggja okkur á þann hátt að það geti allir gengið að því vísu að þeir geti haldið hátíðir af þessu tagi á mannsæmandi hátt. Að þurfa að standa hérna í biðröð í kuldanum til þess að fá skyr og mjólk og brauð og kjöt og smá gjafir handa börnunum sínum. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að þessari þjóð takist ekki að leysa þetta vandamál,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Stjórnarmeirihlutinn hafnaði á lokadögum þingsins breytingatillögu minnihlutans á Alþingi við fjáraukalög sem hefðu hækkað bæturnar aldraðra og öryrkja afturvirkt. „Þeir sem hafa byggt upp þetta þjóðfélag, þá velmegun sem við njótum í dag, þá innviði þess íslands sem við þekkjum, eru hinir öldruðu,“ segir forsetinn. „Við eigum þakkarskuld við þetta fólk að það geti lifað sómasamlegu lífi og hvort sem það eru aldraðir eða öryrkjar eða fólkið sem þarf að standa hérna í biðröð í kuldanum til að eiga mat fyrir sjálfan sig og börnin er auðvitað merki um það að við sem þjóð höfum ekki staðið okkur.“

 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV