Forsetaembættið illa skilgreint í stjórnarskrá

18.05.2016 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Embætti forseta Íslands er afar illa skilgreint í stjórnarskrá lýðveldisins. Það ersameiginleg niðurstaða tveggja fræðimanna, Ragnheiðar Kristjánsdóttur prófesssors í sagnfræði við Háskóla Íslands og Birgis Hermannssonar aðjúnkts í stjórnmálafræði einnig við Háskóla Íslands. Þau fjölluðu um forsetaembættið og væntingar til þess á málstofu við Háskóla Íslands í dag. Ragnheiður segir þetta kristallast í umræðum og ólíkri sýn frambjóðenda til embættisins.

Bráðabirgðaniðurstaða við lýðveldisstofnun

Þessi óljósa staða embættisins á að mati Ragnheiðar rætur að rekja til þess að mjög ólíkar hugmyndir voru á kreiki í aðdraganda lýðveldisstofnunar um það hvernig embættið ætti að vera. Sumir vildu valdamikinn forseta, sumir litu á Bandaríkjaforseta sem fyrirmynd, sumir vildu valdalítinn forseta sem fyrst og fremst væri sameiningartákn, eins konar holdgerfingur þjóðarviljans. Sumir vildu að alþingi kysi forseta, aðrir að hann yrði þjóðkjörinn. Í rauninni hafi niðurstaðan orðið sú sem hún varð vegna þess að menn vildu forðast deilur og sýna einhuga þjóð við lýðveldisstofnunina. Sú endurskoðun sem sem þá var heitið hafi hins vegar aldrei farið fram.

Fólk stilli væntingum í hóf

Birgir Hermannsson segir hvern forseta stjórna að nokkru leyti þeim væntingum sem fólk gerir til embættisins. Ferill Ólafs og sýn hans á embættið móti því nokkuð umræðuna nú þótt forsetaefni keppi ekki endilega um að verða eins forseti og Ólafur. Fólk þurfi að stilla væntingum sínum í hóf og gera sér skýra grein fyrir því hvað forseti getur gert samkvæmt stjórnskipaninni og hvað ekki. Hann tekur undir með Ragnheiði um að embættið sé illa skilgreint í stjórnarskránni. Hér má hlusta á viðtöl Spegilsins við Ragnheiði og Birgi í heild sinni.

jongk's picture
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi