
Forsætisráðuneyti skilgreinir verndarsvæði
Samkvæmt frumvarpinu eru sveitarfélög skylduð til að meta á fjögurra ára fresti hvort innan marka þeirra sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu, svipmót og menningarsögu varðar að ástæða sé til að gera hana að verndarsvæði. Ákvörðun um að gera tiltekna byggð að verndarsvæði verði hjá forsætisráðherra að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórnar.
Minnihlutinn á Alþingi mótmælti harðlega frumvarpinu og segir aðfinnsluvert að færa völd úr höndum sveitarstjórna yfir til eins ráðherra. Að mati minnihlutans yrði um að ræða huglægt mat þess einstaklings sem gegnir embætti forsætisráðherra hverju sinni. Slíkt fyrirkomulag beri keim af ráðherraræði og geti valdið ófyrirsjáanleika og óvissu í allri ákvarðanatöku.
Jaðrar við stjórnarskrárbrot
Þegar forsætisraðherra lagði frumvarpið fram í byrjun maímánaðar sagðist Halldór Halldórsson, formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga, telja það óþarft. Sagði hann það fela í sér mikið valdaframsal til forsætisráðherra, stríða gegn skipulagsvaldi sveitarfélaga og vega gróflega að sjálfsstjórnarrétti þeirra „...[b}æði eins og hann er skilgreindur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og eins og hann er skilgreindur í sáttmála Evrópuráðsins sem Ísland hefur samþykkt.“ Aðspurður hvort stjórn sambandsins liti svo á að um væri að ræða einhvers konar stjórnarskrárbrot, yrði frumvarpið að lögum, sagði hann að að minnsta kosti væri verið að fara „mjög nálægt því að brjóta ákvæði stjórnarskrár“.