Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um sögu Kongó í Mið-Afríku, sem nú heitir Austur-Kongó. Í síðasta þætti var fjallað um sögu Kongó á nýlendutímanum, þegar landið var „einkanýlenda“ Leópolds II Belgakonungs.
Engir herforingjar og engir læknar
Þegar Kongó fékk sjálfstæði voru aðeins örfáir Kongóbúar með háskólapróf, það voru engir kongóskir læknar eða kennarar, engir herforingjar og mjög fáir í stjórnkerfinu.
Belgía hafði alltaf haldið mjög fast um stjórnartaumana og álitið innfædda of „frumstæða“ til að axla nokkra ábyrgð. Kongóbúar höfðu því litla sem enga reynslu af þing- og lýðræði eða stjórnsýslu.
Engu að síður var landinu veitt sjálfstæði og belgísk stjórnvöld vonuðust til þess að Kongóbúar myndu leyfa belgískum embættismönnum og herforingjum að vera áfram í landinu og sinna störfum sínum.