Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsætisráðherra myrtur og leystur upp í sýru

19.01.2018 - 11:21
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Kongó í Mið-Afríku hlaut sjálfstæði frá Belgíu 30. júní 1960. Landið var illa búið undir sjálfstæði og aðeins örfáum dögum síðar var hið sjálfstæða Kongó í algjörri upplausn, logaði í óeirðum og átökum. „Kongókrísan“ svokallaða átti eftir að hafa áhrif á kalda stríðið, Sameinuðu þjóðirnir og leiða til dauða um hundrað þúsund Kongóbúa. Þar á meðal var forsætisráðherra Kongó og sjálfstæðishetja, sem hlaut sérstaklega ógeðfelldan dauðdaga.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um sögu Kongó í Mið-Afríku, sem nú heitir Austur-Kongó. Í síðasta þætti var fjallað um sögu Kongó á nýlendutímanum, þegar landið var „einkanýlenda“ Leópolds II Belgakonungs

Engir herforingjar og engir læknar

Þegar Kongó fékk sjálfstæði voru aðeins örfáir Kongóbúar með háskólapróf, það voru engir kongóskir læknar eða kennarar, engir herforingjar og mjög fáir í stjórnkerfinu.

Belgía hafði alltaf haldið mjög fast um stjórnartaumana og álitið innfædda of „frumstæða“ til að axla nokkra ábyrgð. Kongóbúar höfðu því litla sem enga reynslu af þing- og lýðræði eða stjórnsýslu.

Engu að síður var landinu veitt sjálfstæði og belgísk stjórnvöld vonuðust til þess að Kongóbúar myndu leyfa belgískum embættismönnum og herforingjum að vera áfram í landinu og sinna störfum sínum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kongó fékk formlega sjálfstæði við stirða athöfn í stjórnarráðinu í höfuðborginni Léopoldville.

Konungur strunsaði út úr stjórnarráðinu

Byrjunin var þó strax erfið. Í ræðu við sjálfstæðisathöfnina lofaði Baudouin Belgakonungur afabróður sinn Leópold II konung í hástert og misbauð mörgum Kongóbúum.

Patrice Lumumba, helsti sjálfstæðisbaráttumaður Kongóbúa til margra ára og fyrsti forsætisráðherra sjálfstæðs Kongó, úthúðaði því konunginum í ræðustól við sjálfstæðisathöfnina, og taldi upp fjölmarga glæpi Belga á nýlendutímanum.

Belgakonungur strunsaði út í fússi og Lumumba var lýst sem hættulegum róttæklingi í vestrænu pressunni. 

Upplausn viku eftir sjálfstæði

Aðeins viku eftir sjálfstæði höfðu kongóskir hermenn gert uppreisn gegn belgískum yfirboðurum sínum og landið logaði í óeirðum. Hvítir íbúar Kongó flúðu land í stríðum straumum og Belgía sendi herlið til landsins að vernda þegna sína. 

Síðan sagði auðugasta hérað landsins, Katanga, sig úr lögum við stjórnvöld í Kongó og lýsti yfir sjálfstæði. Í Katanga er að finna nær óendanlega verðmæta málma í jörðu, allt frá kopar til úrans.

Belgísk námafyrirtæki voru áhrifamikil í héraðinu og aðskilnaðarsinnar gátu því tryggt sér hernaðaraðstoð frá Belgíu.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Fjölmennasta friðargæslulið í sögu SÞ gat ekki stillt til friðar í Kongó.

Kalda stríðið kemur til Afríku

Lumumba leitaði til Sameinuðu þjóðanna en fannst þær bregðast sér. Dag Hammarskjöld, aðalritari SÞ, vildi aðeins senda friðargæslulið til Kongó, ekki veita beina hernaðaraðstoð gegn aðskilnaðarsinnum Katanga.

Þá leitaði forsætisráðherrann á náðir Sovétríkjanna, sem brugðust fljótt við og sendu vopn og vistir til Kongó. 

Landið dróst þannig inn í kalda stríðið. Að vingast við Sovétmenn átti ekki eftir að reynast heillavænleg ákvörðun hjá Lumumba.

Ekki löngu síðar var hann svikinn af nánum vini sínum og samstarfsmanni, sem reyndist vera á mála hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA, og var tekinn höndum, pyntaður og myrtur.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Joseph Mobutu sveik vin sinn Lumumba og átti eftir að hafa mikil áhrif á sögu Kongó næstu áratugina.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Fyrri þætti má finna á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.