Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forsætisráðherra kennir „Jólabókaflóðið“

30.11.2017 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endurmenntun Háskóla Íslands auglýsti í dag kvöldnámskeiðið „Jólabókaflóðið" sem hefst í janúar næstkomandi. Ekki verður betur séð en Katrín Jakobsdóttir, nýskipaður forsætisráðherra lýðveldisins, verði kennarinn sem leiða mun nemendur í allan sannleika um jólabókaflóðið.

Námskeiðið var auglýst í fjöldapósti sem Endurmenntun sendi út klukkan 11:03 í morgun eða um klukkustund eftir að kennari námskeiðsins kynnti nýjan stjórnarsáttmála fyrir fjölmiðlum og þjóðinni allri á blaðamannafundi. Námskeiðið mun telja fimm kvöldstundir og til stendur að lesa nýleg skáldverk og ræða sérkenni og inntak þeirra.

Nokkuð er liðið síðan Endurmenntun auglýsti umrætt námskeið fyrst. Greinilegt er að fjölmargir geta hugsað sér að læra um jólabækurnar af stjórnmálakonunni því námskeiðið er nú þegar fullbókað.

Lísu Kristjánsdóttur, aðstoðarmanni Katrínar, þótti það spaugilegt þegar fréttamaður benti henni á auglýsinguna. Hún sagði að Katrín hefði eflaust ákveðið fyrir löngu að taka kennsluna að sér en ómögulegt væri að segja hvort hún gæti staðið við að kenna námskeiðið, nú þegar hún er orðin forsætisráðherra.

Lísa sagði að Katrín hefði nokkrum sinnum tekið að sér að kenna sambærileg námskeið hjá Endurmenntun á síðustu árum og þótt það virkilega skemmtilegt. Henni þætti það eflaust mjög súrt ef hún þyrfti að afboða sig.

Katrín Jakobsdóttir er bókmenntafræðingur að mennt og skrifaði meistaraprófsritgerð um íslenskar sakamálasögur. Erlendir fjölmiðlar hafa gripið þetta á lofti, til að mynda New York Times, sem slær því upp í fyrirsögn að forsætisráðherrann sé sérfræðingur í glæpasögum.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af nytimes
birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV