Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forsætisráðherra: „Auðvitað er öllum brugðið“

15.01.2020 - 10:24
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Ég held að okkur öllum sé brugðið. Og ég notaði tímann í morgun, um leið og ég heyrði þessar fréttir, til að heyra í fólki fyrir vestan. Og auðvitað er öllum brugðið og upp rifjast atburðirnir 1995, sem eru okkur í fersku minni,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem sat fund með almannavörnum í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í morgun vegna snjóflóðanna á Vestfjörðum.

„Það er auðvitað mildi að ekki hafi orðið neitt manntjón en það er ljóst að eignatjón er verulegt. Veður er enn vont þannig að nú þurfum við að fylgjast mjög grannt með gangi mála og vona það besta, en um leið er ljóst að allir viðbragðsaðilar eru á fullu. Varðskipið Þór var sent vestur vegna slæmrar veðurspár og það er mjög mikilvægt því nú er það á leiðinni með bæði björgunarsveitarfólk, viðbragðsaðila og vistir. Og það verður sett á laggirnar fjöldahjálparstöð í hádeginu. Það er mjög mikilvægt að veita áfallahjálp í svona tilfelli, því þetta rifjar upp þessa skelfilegu atburði. En nú standa vonir til þess að veðrið fari að ganga niður, síðar í dag. Og um leið og birtir verður auðveldara að meta stöðuna á öllum stöðum. Þannig að það eru allir viðbragðsaðilar að gera sitt og að einhverju leyti voru menn tilbúnir fyrir fram. En við fylgjumst áfram grannt með stöðu mála,“ segir Katrín.

„Við munum að sjálfsögðu hittast í ráðherranefnd um samræmingu mála seinna í dag og fara yfir stöðuna. En síðan á eftir að koma í ljós hve tjónið er mikið og við verðum alltaf að fara yfir reynsluna af svona atburðum, og fara yfir það hvað gekk upp og hvað hefði betur mátt fara.“

 Katrín á ekki von á því að öryggisráð verði kallað saman vegna þessarar stöðu.

„Ég mun fara vestur þegar veður leyfir og fara yfir þessa stöðu með sveitarstjórnarfólki. Ég heyrði auðvitað í bæjarstjóranum í morgun en það er líka mikilvægt núna að það eru allir á vaktinni að vinna og það er auðvitað mikilvægt að fólk fái líka svigrúm til þess,“ segir Katrín.