Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forsætisnefnd fellst á niðurstöðu siðanefndar

01.08.2019 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisnefnd Alþingis, skipuð þeim Haraldi Benediktssyni og Steinunni Þóru Árnadóttur, fellst á það mat siðanefndar Alþingis að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hafi brotið siðareglur Alþingis með ummælum á Klaustur bar 20. nóvember.

Forsætisnefndin lauk umfjöllun sinni í dag. Siðanefndin lauk hins vegar umfjöllun sinni 5. Júlí síðastliðinn, en greint var frá niðurstöðu nefndarinnar í fjölmiðlum í morgun. 

Eins og fram kom í morgun er það niðurstaða nefndarinnar að þingmennirnir Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu ekki gerst brotleg við siðareglur. 

Steinunn Þóra og Haraldur tóku sæti í forsætisnefnd til þess að fjalla um álit siðanefndarinnar í málinu eftir að forseti Alþingis og allir varaforsetar sögðu sig frá málinu sökum vanhæfis.