Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forsætisnefnd búin með Klausturmálið

01.08.2019 - 11:38
Mynd: RÚV - Brynjólfur Þór Guðmun / RÚV - Brynjólfur Þór Guðmun
Sérstök forsætisnefnd Alþingis vegna Klausturmálsins lauk yfirferð sinni á málinu nú fyrir hádegi og birtir hana opinberlega þegar líður á daginn. Viðamikil samantekt nefndarinnar er nú í próflestri og verður síðan send á þingmennina sex sem við sögu koma áður en hún verður birt opinberlega.

„Við vorum á okkar síðasta fundi varðandi varðandi þetta mál,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, sem situr í nefndinni ásamt Haraldi Benediktssyni. „Nú er ferillinn sá að við munum skila af okkur skjali þar sem er farið yfir málið. Það er núna í prófarkalestri og verður síðan sent hluteigandi þingmönnum svo að þeir geti kynnt sér það áður en skjalið verður gert opinbert. Það verður að öllum líkindum seinna í dag eða síðdegis.

Ráðgefandi siðanefnd skilaði forsætisnefnd áliti sínu í síðustu viku. Þingmennirnir sex skiluðu athugasemdum á föstudag. Það eru þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason sem siðanefnd mat brotlega við siðareglur, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. Anna Kolbrún Árnadóttir var ekki talin brotleg við siðareglur og sagði nefndin að hún fengi notið vafans vegna ummæla sinna um Freyju Haraldsdóttur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason brutu ekki siðareglur að mati nefndarinnar samkvæmt frétt blaðsins.