Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fórnarlamb hnífsárásar á Kópaskeri sjálft hlotið dóm

02.03.2020 - 11:56
Mynd með færslu
Frá vettvangi árásarinnar á Kópaskeri. Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fórnarlamb hnífstunguárásarinnar á Kópaskeri aðfaranótt laugardags hefur tvisvar hlotið dóm fyrir hnífstungur. Hann liggur nú á gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri ásamt meintum árásarmanni. Sá fannst rænulítill í fangaklefa sínum um helgina.

Lögregluvakt á gjörgæslunni

Lögregluvakt er á gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri þar sem mennirnir dvelja. Maðurinn sem er grunaður um árásina var fluttur á sjúkrahús eftir að hann fannst rænulítill í fangaklefa sínum. Það hefur ekki fengið staðfest hvers vegna - en lögreglan á Akureyri vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Maður og kona sem voru handtekin í tengslum við málið voru látin laus í laugardagskvöld. Þau eru ekki talin tengjast árásinni. 

Fórnarlambið tvisvar hlotið dóm fyrir hnífstungu

Fórnarlambið, maður á sextugt, hefur sjálfur komist í kast við lögin. Árið 2007 hlaut hann þriggja ára dóm fyrir að stinga fyrrverandi unnustu sína á Húsavík. Þremur árum síðar hlaut hann svo aftur þriggja ára dóm fyrir að stinga mann á Akureyri í brjóstið. 

Kallað var eftir aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra eftir að tilkynning barst um hnífstunguna þar sem ófært var á Kópasker. Hún kom þangað með þyrlu Landhelgisgæslunnar tveimur tímum eftir tilkynninguna. Vegagerðin var sömuleiðis kölluð út til að opna lögreglu leið að þorpinu.  Fólkið sem var handtekið var allt gestkomandi í þorpinu.