Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Forn mannabein fundin í Breiðavík - myndir

06.06.2015 - 20:23
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Birna Mjöll Atladóttir
Mannabein hafa fundist í Breiðavík við Látrabjarg. Birna Mjöll Atladóttir rekur hótel þar. „Sumir gestanna stoppa lengur en aðrir,“ segir hún. Nýjasti fundurinn var í gær þegar það fannst kjálki með tönnum í ótrúlega góðu ásigkomulagi.

Árið 2000, fljótlega eftir að Birna og fjölskylda hennar flutti til Breiðavík, komu menn frá Fornleifastofnun Íslands þangað vegna mannabeinafundar.

Fjölskyldan hafði ekki fundið nein bein og Birna vissi heldur ekki til þess að bein hefðu fundist þar áður. „Þegar ég spurði hver hefði tilkynnt um beinafundinn kannaðist ég við nafnið úr sögubókum,“ segir Birna. Í ljós kom líka að tilkynningin hafði borist Fornleifastofnun árið 1912. Birnu þótti þetta heldur sein viðbrögð og léleg þjónusta.

Talið er að árið 1912, þegar verið var að byggja grunninn að húsinu, hafi menn komið niður á gröf sem væntanlega var frá því í heiðni.

Komu í ljós við framkvæmdir
„Þegar við fórum svo að byggja við húsið fóru fleiri mannabein að koma í ljós,“ segir Birna. Eitt hafði staðið út úr bakka, sem húsið stendur á, í einhvern tíma án þess að neinn áttaði sig á þvi hvað það var. Kunningi sem kom í heimsókn sá hins vegar strax að þetta var mannabein.

Síðustu ár segir Birna að fleiri og fleiri bein hafi svo komið í ljós þegar ítrekað hefur verið átt við grunn hússins.

Í gær fannst kjálki með tönnunum ennþá föstum í. „Tennurnar eru ótrúlegar,“ segir Birna. „Þær eru eins og fallegt postulín.“

Hún segir að það séu ekki bara mannabein sem hafi fundist heldur hafi líka fundist einhver bein úr hestum. Þetta segir Birna geta bent til þess að beinin séu úr höfðingjum, þar sem hestar hafi víst verið grafnir með þeim.

Vill ekki láta setja beinin í kirkjugarð
Margir hafa spurt Birnu hvort þau vilji ekki láta færa beinin í kirkjugarðinn. „Ef þetta er frá heiðni þá ætla ég ekki að vera sú sem setur þau í vígða mold,“ segir hún. „Þeim virðist líða vel hér. Hér eru góðir andar.“

Birna segir að það virðist heldur ekkert trufla andana að beinin séu geymd inni í geymslu. Birnu og fjölskyldu hennar líkar sambúðin vel og svo virðist sem þau séu ekki ein um það.

Birna segir að þau langi svolítið að vita meira um beinin en að það kosti víst mikla peninga. Hún segir engan hafa sýnt þeim neinn áhuga hingað til.

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV