Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Formlegar viðræður gætu hafist í þessari viku

08.11.2016 - 11:18
Mynd: Skjáskot / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það væri best að hafa þrjá flokka í næstu ríkisstjórn en ekki sé útilokað að það þurfi fjórða flokkinn til. Hann sé þó ekki hrifinn af því. Bjarni er vongóður um að geta hafið formlegar stjórnarmyndunarviðræður á næstu dögum og reiknar með að upplýsa forseta Íslands um gang mála í þessari viku.

Bjarni hitti Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson, formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, á fundi í gær og er talið að þar hafi þeir rætt fyrirhugað stjórnarsamstarf.  

Bjarni, sem fékk stjórnarmyndunarumboðið í síðustu viku, ræddi við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur á tröppunum fyrir utan stjórnarráðið þegar ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun.

Bjarni sagði að þeir hefðu rætt saman oftar en einu. Það hefði verið vitað að það yrði snúið að mynda ríkisstjórn með fleiri en tveimur flokkum - að sjá fyrir öll horn. „Og það er það sem ég hef verið að gera, ræða við minn flokk og hugsa út í alla kosti þess og galla að þessir flokkar næðu saman.

Óttarr Proppé sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að ekkert launungarmál væri að talsverður munur væri á málflutningi Sjálfstæðisflokksins og þeirra og fátt benti til annars en að viðræðurnar myndu dragast á langinn.

Bjarni sagði að þetta væri ekki allt undir honum komið - samtölin hefðu gengið ágætlega. Það hefði þurft nokkra daga til að losa um spennuna eftir kosningarnar. Hann sagðist ætla að heyra í fólki í dag og hann væri vongóður um að formlegar viðræður gæti hafist á næstu dögum - það yrði í þessari viku.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV