Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Formaður SÁÁ býðst til að stíga til hliðar

28.03.2020 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, hefur boðist til að stíga til hliðar sem formaður samtakanna í þeirri von að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, dragi uppsögn sína til baka.

Valgerður sendi stjórn SÁÁ uppsagnarbréf sitt í fyrradag. Þetta gerði hún eftir að stjórnin sagði átta manns upp og lækkaði starfshlutfall annarra vegna rekstrarvanda og tekjumissis sem blasir við.

Valgerður segir að sú ákvörðun hafi verið tekin einhliða og án samtals við hana eða aðra yfirmenn. Það geti hún ekki sætt sig við og því hafi hún ákveðið að hætta. 

Mikill óróleiki er innan samtakanna. Þrír af níu í framkvæmdarstjórn SÁÁ hafa sagt sig úr stjórninni síðasta sólarhringinn. 

Arnþór segir í yfirlýsingu sem birt var á vef SÁÁ að atburðarásin hafi verið hröð og staðan hættuleg. Þá þurfi að taka erfiðar ákvarðanir. 

„En enginn einstaklingur er mikilvægari en SÁÁ. Mikill óróleiki er innan samtakanna og ég hef því ákveðið að bjóðast til að stíga til hliðar sem formaður í þeirri von að forstjórinn dragi uppsögn sína til baka og finni betri lausn á rekstrarvanda samtakanna.“