Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fordæmalaus truflun á fjarskiptasambandi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Fjarskiptasamband hefur rofnað víða um land í illviðrinu. Þorleifur Jónasson, hjá Póst- og fjarskiptastofnun, segist aldrei hafa séð jafnmikla truflun á fjarskiptum. Bæði farsímasamband og tetrakerfi almannavarna hefur raskast. Áhrifanna gætir allt frá norðanverðum Vestfjörðum, um Norðurland allt og um Austfirði. Þetta hafi truflað störf björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila.

Þá hafa útsendingar sjónvarps og útvarps dottið út bæði á Norðurlandi og Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum Vodafone á langbylgja RÚV hins vegar að virka um allt land. 

Þorleifur segir að staðan sé slæm. „Það er mikið af sendistöðvum sem eru úti í augnablikinu. Það kemur til af mörgum samverkandi þáttum en rafmagnsleysið er orsökin númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Þorleifur. Sums staðar á Norðurlandi hefur verið rafmagnslaus frá því um miðjan dag í gær. Varaaflsstöðvar geti margar ekki gengið í langan tíma. 

„Sums staðar hefur örbylgjusamband rofnað frá sendistöðvum vegna veðurs. Það sest á þetta snjór og ís,“ segir Þorleifur.

Er langt síðan þú hefur séð svona miklar truflanir á fjarskiptakerfum?

„Já, ég held að ég hafi aldrei séð svona alvarlega stöðu eins og er uppi núna,“ segir Þorleifur. Bæði almennu fjarskiptakerfin og tetrakerfi almannavarna hafa rofnað. Tetrakerfið byggir á stofnlínusamböndum og örbylgjusamböndum sem hafa rofnað. 

Allt frá Vestfjörðum til Austfjarða

„Þetta er auðvitað þar sem veðrið hefur verið verst. Frá norðanverðum Vestfjörðum, Norðurland allt og yfir á Austfirði. Það er nýlega farið út rafmagn á Austfjörðum þannig að það fer strax að hafa áhrif. 

Veistu til þess að þetta hafi truflað störf björgunarfólks og viðbragðsaðila?

„Já, um leið og tetrakerfið fer út, þá fer það að trufla störf björgunarfólks og almannavarna,“ segir Þorleifur. 

Er eitthvað sem Póst- og fjarskiptastofnun getur gert?

„Þegar storminn lægir munum við fara yfir þetta með rekstrarhöfum fjarskiptakerfanna og skoða hvað er hægt að gera. Við erum að undirbúa stórt og mikið úttektarverkefni sem einmitt snýr að öryggi fjarskiptastaða. Það er enn mikilvægara eftir að svona gengur yfir,“ segir Þorleifur.

Meiri áhrif en búist var við

Hann vill ekki að svo stöddu fullyrða neitt um það hvort þeir sem sinni fjarskiptaþjónustu hafi staðið sig í stykkinu eða ekki.

Bjuggust þið ekki við að veðrið myndi hafa svona mikil áhrif á fjarskiptakerfið?

„Nei, ég átti satt best að segja ekki von á því að þetta hefði svona alvarlegar afleiðingar. En við skulum horfa til þess líka að þetta er eitt versta veður sem hefur gengið yfir,“ segir Þorleifur.

 

Fréttastofan tekur feginshendi við myndum og myndskeiðum af veðri og vandræðum, einkum ef myndirnar eru teknar þannig að þær eru meira á breiddina en hæðina, þ.e.a.s. ef símanum er snúið á hlið en ekki upp á rönd.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV