Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fordæmalaus staða í ísraelskum stjórnmálum

30.05.2019 - 12:48
Mynd: EPA-EFE / EPA
Boðað hefur verið til kosninga í Ísrael í annað sinn á þessu ári. Sérfræðingar segja stöðuna í stjórnmálum fordæmalausa. Það hefur aldrei gerst áður að sitjandi forsætisráðherra takist ekki að mynda stjórn.

Yuli Edelstein, forseti ísraelska þingsins Knesset, tilkynnti niðurstöðu atkvæðagreiðslu þingmanna um að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga rétt eftir miðnætti. Það eru aðeins rúmar sjö vikur frá því að Ísraelar gengu síðast að kjörborðinu en Benjamín Netanjahú, sitjandi forsætisráðherra, tókst ekki að mynda ríkisstjórn. Það reyndi hann í 42 daga eftir að hann fékk umboð til stjórnarmyndunar frá forseta landsins og rann fresturinn út á miðnætti í gær. Ísraelski stjórnmálaskýrandinn Yohanan Plesner segir þetta fordæmalausu stöðu í ísraelskum stjórnmálum sem sé komin til vegna stöðu forsætisráðherrans. Plesner sagði að ef ekki væri fyrir yfirvofandi ákæru ríkissaksóknara sem Netanyahu á yfir höfði sér, hefði verið mun auðveldara fyrir hann að mynda stjórn. Forsætisráðherrann á yfir höfði sér ákæru í þremur liðum fyrir mútur, fjársvik og umboðssvik. Hann neitar sök en til stendur að yfirheyra hann í byrjun október, rétt eftir nýju kosningarnar sem eiga að fara fram 17. september.

Í tilraun sinni til þessa að mynda stjórn horfði Netanjahú til hinna flokkanna á hægri vængnum. Aðrir stjórnmálaskýrendur hafa leitt líkum á Twitter að því að það sé vegna þess að einungis hægri flokkar vilji samþykkja lög sem hlífi forsætisráðherranum við lögsókn. 

Avigdor Liberman gaf sig ekki

Stjórnarmyndunarviðræðurnar fóru út um þúfur aðallega vegna þess að Avigdor Liberman, leiðtogi Yisrael beiteinu, sem er hægri flokkur þjóðernissinna, setti það sem skilyrði að frumvarp um herskyldu strangtrúaðra gyðinga verði samþykkt. Þeir eru nú undanþegnir herskyldu og hægri flokkar strangtrúaðra gyðinga sem Netanyahu leitaði einnig stuðnings hjá eru mjög á móti frumvarpinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Liberman og Netanjahú lendir saman. Sá fyrrnefndi sagði af sér embætti varnarmálaráðherra í nóvember í fyrra vegna andstöðu við samkomulag sem ísraelsk stjórnvöld gerðu við Hamas samtökin sem stjórna á Gaza-svæðinu í Palestínu. 

Netanjahú var bjartsýnn þegar hann svaraði spurningum fréttamanna, skömmu eftir miðnætti að ísraelskum tíma. „Við förum í snarpa og skýra kosningabaráttu sem mun skila okkur sigri. Við munum sigra. Við vinnum og almenningur vinnur,“ sagði Netanjahú.