Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fordæmalaus fjöldi með fé á aflandseyjum

07.04.2016 - 11:29
Mynd: RÚV / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson tilvonandi forsætisráðherra segir mikinn trúnaðarbrest í samfélaginu og það sé undir öllum þingmönnum komið að taka á honum. Fjöldi Íslendinga sem geymi fé á aflandseyjum sé fordæmalaus og fara þurfi yfir hvort lagaumhverfi okkar í þeim málum sé rétt.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Sigurð Inga á Alþingi í dag hvort ríkisstjórnin ætli ekki að taka alvarlega þann mikla fjölda sem geymi fé á aflandseyjum. Íslendingar virðist eiga heimsmet í því eins og mörgu öðru. Hún spurði um ummæli Sigurðar Inga um að flókið væri að eiga peninga á Íslandi.  

Sigurður Ingi segir að sá fjöldi sem hafi ákveðið að geyma peningana með þessum hætti sé fordæmalaus. Það sé ekkert að því ef menn geri það með löglegum hætti en það sé mikið að því þegar það sé gert í þeim tilgangi að fela fé og skila ekki sköttum til samfélagsins. Það þurfi að fara yfir hvort lagaumhverfið sé rétt og í því sambandi þurfi allir þingmenn að axla ábyrgð og taka á þessu máli eins og svo margar þjóðir vilji gera. Það sé mikilvægt að við stöndum saman um að allir eigi að standa skil á sínu, það eigi ekki að fela fé, hvað þá að stinga því undan með öðrum hætti. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að vandinn við umræðuna sé að setja á sömu hylluna þá sem hafa verið að stunda alþjóðleg viðskipti með heiðarlegum hætti og svo hina sem nýti sér félög og lönd á lágskattasvæðum til að svíkjast undan borgaralegum skyldum sínum.