Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólksfækkun í Grímsey þrátt fyrir aðgerðir

05.02.2019 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Þótt Grímseyingar hafi tekið þátt í verkefninu „Brothættar byggðir“ síðan sumarið 2015, hefur ekki tekist að snúa við íbúaþróun í eyjunni. Verkefnastjórinn segir þó að vel hafi tekist til í mörgum verkefnum og ýmislegt hafi breyst til batnaðar.

Fundur um stöðu verkefnisins var haldinn í Grímsey á sunnudag. Um 20 íbúar sátu fundinn þar sem rætt var hvernig til hafi tekist og ræddar mögulegar leiðir til að renna styrkari stoðum undir búsetu í eyjunni. Auk íbúanna sátu fundinn verkefnisstjórn byggðaþróunarverkefnisins „Glæðum Grímsey,“ bæjarstjórinn á Akureyri, bæjarfulltrúi og fleiri.

Á þriðja tug milljóna varið til verkefna í Grímsey

Frá 2015 hefur Byggðastofnun varið 21 milljón króna til 18 verkefna sem snerta Grímsey. Árið 2019 er áætlað að greiða sjö milljónir til viðbótar. Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnastjóri Brothættra byggða í Grímsey, segir að staða þeirra verkefna, sem ráðist hafi verið í, sé nokkuð góð þegar á heildina er litið.

Barnafjölskyldum fækkar í eyjunni

Betra net- og símsamband sé komið í Grímsey, ferðum Grímseyjarferjunnar hafi fjölgað og íbúar fái nú afslátt af flugfargjöldum. Það sem sem efst sé á baugi þar núna, snúi að fækkun barnafjölskyldna í eyjunni. 61 er í dag með lögheimili í Grímsey, þrjú börn eru þar í grunnskóla og tvö í leikskóla. Á næsta ári er útlit fyrir að aðeins tvö börn verði á skólaaldri í eyjunni, eitt í grunnskóla og eitt í leikskóla. Til að laða að fleira fólk, segir Helga að meðal annars hafi verið ræddar einhvers konar ívilnanir, skattaafslættir eða annað sem gæti hjálpað.

Eitt ár eftir af verkefninu

Grímsey verður innan byggðaþróunarverkefnisins í eitt ár til viðbótar. Í vinnuhópum á fundinum var rætt um ný markmið og ítarlegri útfærslu á fyrri markmiðum. Þá voru mannvirki sveitarfélagsins til umræðu og viðhald þeirra, rætt var um sjálfbærni í orkumálum og ferðaþjónustu. Meðal annars var talað um að byggja útsýnispall fyrir fuglaskoðun við eitthvert bjargið, til að auka öryggi ferðamanna og fuglaáhugafólks.