Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Fólkið í landinu er ítrekað að bjarga flóttafólki“

03.02.2020 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Mál hins sjö ára gamla Muhammeds Khan og fjölskyldu hans vakti mikla athygli um helgina. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra frestaði brottvísun þeirra í gær og stytti hámarkstíma málsmeðferðar úr 18 mánuðum í 16.

Sjá einnig: Segja stuðninginn ómetanlegan

Til stóð að vísa Khan-fjölskyldunni úr landi í dag en hún er frá Pakistan og hefur búið hér í tvö ár. Muhammed talar reiprennandi íslensku og er í fyrsta bekk í Vesturbæjarskóla. Skólafélagar hans og fjölskyldur þeirra stóðu um helgina fyrir samstöðufundi og undirskriftasöfnun þar sem brottvísuninni var mótmælt. 17 þúsund undirskriftir söfnuðust á tveimur dögum. 

Almenningur greip í taumana

Valur Grettisson og Ólöf Helga Jakobsdóttir voru meðal foreldra sem börðust fyrir því að hætt yrði við brottvísunina. 

„Við lömuðumst við þessar fréttir. Þetta er strákur sem allir í skólanum þekkja og elska. Við urðum bara að gera eitthvað. Það var lítil hugmynd að hitta hann og halda upp á afmælið hans sem svo endaði með þessu í gær. Almenningur bara tók boltann af okkur,“ sagði Ólöf Helga í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun. 

„Fólkið í landinu er ítrekað að bjarga flóttafólki. Það er það ótrúlega. Íslenska þjóðin er á allt annarri bylgjulengd en Útlendingastofnun.“

Sjá einnig: Þúsundir mótmæla brottvísun fjölskyldu til Pakistans

Þau óraði ekki fyrir viðbrögðunum.

„Við bjuggumst ekki við miklu. Maður hélt að Íslendingar væru orðnir þreyttir á svona harmleikjum. Við höfum séð þetta svo oft. En þjóðin bara tók sig saman og hreinlega stöðvaði þetta, með samhentu átaki, og ekkert annað,“ segir Valur.

Áslaug Arna setur mark sitt á málaflokkinn

Þau segja ánægjulegt að dómsmálaráðherra hafi gert kerfisbreytingar vegna málsins. Málsmeðferðartíminn sé allt of langur og erfiður fyrir fjölskyldur í þessari stöðu. 

„Dómsmálaráðherra tók nokkuð áhugaverða ákvörðun í gær. Þetta er hluti af umfangsmeiri stefnumótun og það er augljóst að Áslaug Arna er að reyna að setja mark sitt á þennan málaflokk með mannúðlegri hætti og hún á skilið hrós fyrir,“ segir Valur.

Khan-hjónin vantar atvinnu

Valur og Ólöf benda á að enn sé verk óunnið við að gera betur. Kerfið mætti að þeirra mati vera mun sveigjanlegra. Um sé að ræða fjölskyldur sem vilji vinna fyrir sér og séu að reyna að komast af. Þá vanti foreldra Muhammeds, þau Faisal og Nihu Khan, atvinnu.

„Ég vil líka benda á að þetta fólk vantar líka alveg sárlega vinnu líka. Ef einhver veit um vinnu þarna úti þá er þetta viðskiptamenntað fólk. Faisal er svo sem enginn verkamaður en er alveg tilbúinn að gera hvað sem er, svo ef einhver veit um vinnu fyrir þau má endilega hafa samband við okkur á Facebook,“ sagði Valur Grettisson í Morgunútvarpinu.