Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólkið í framlínunni lýsir lífinu á tímum COVID-19

25.03.2020 - 17:45
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Fólk í framlínustörfum leggur sig í ákveðna hættu til að halda samfélaginu gangandi. Það hittir fjölda fólks á hverjum degi og er því kannski útsettara en margir fyrir smiti. Spegillinn ræddi við lyfsala, leikskólakennara, strætóbílstjóra og starfsmenn matvöruverslana um lífið í framlínunni, um reynsluna af samkomubanni, fórnir og fúkyrðaflaum, óvissu og öryggi.

Röð fyrir framan apótekið á hverjum morgni

Sædís Kr Gígja, lyfsali í Lyfjaveri við Suðurlandsbraut, segir að sér finnist hún mjög vel varin, fyrirtækið geri allt sem það geti. Það sé búið að setja upp gler sem aðskilur starfsfólk frá viðskiptavinum og allir séu með hanska og grímur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Sædís Kr Gígja stendur vaktina í Lyfjaveri við Suðurlandsbraut í Reykjavík.

Það er brjálað að gera, sérstaklega á morgnana. Svo virðist sem fólk flykkist í apótek snemma dags, kannski vegna þess að það heldur að þá séu færri á ferli. Þegar opnar klukkan níu er löng röð hér fyrir utan, segir Sædís, fólk sé að sækja lyfseðilsskyld lyf en líka mikið að kaupa spritt, hitalækkandi verkjalyf, hanska og annað tengt faraldrinum. Flestir virðist raunar í erindagjörðum tengdum COVID-19. Hún segir að fólk virðist mjög hrætt, þannig velji margir að bíða eftir lyfjunum úti í bíl, starfsmenn hringi svo í það þegar lyfin eru tilbúin til afgreiðslu.

Fólk bæði reitt og aggressíft

Fólk er ekki bara hrætt, Sædís segir marga líka reiða og dónalega. Starfsfólk apóteksins hafi síðustu daga fengið yfir sig ýmis fúkyrði. Tekið hefur verið fyrir skil á vörum vegna ástandsins. Sædís segir að einn viðskiptavinur hafi tekið því mjög illa að mega ekki skila vöru sem hann keypti og lýst því yfir að hann vonaði að starfsmenn Lyfjavers fengju allir COVID-19. Annar viðskiptavinur kallaði samstarfskonu hennar nöfnum sem hún vill helst ekki hafa eftir. Sædís segir að svona hafi þetta ekki verið áður, hún telur þetta breytta viðmót fólks tengjast faraldrinum. Margir séu agressífir og tillitslausir, komi reiðir inn í apótekið og láti reiðina bitna á starfsfólki. Hún og samstarfskonur hennar séu eins og boxpúðar og oft alveg búnar á því eftir vinnudaginn. 

Gerir hvað sem er til að passa vinnustaðinn

Hún segir að þessa dagana sé hún bara í vinnunni og svo fari hún heim. Þetta sé það mikilvægur vinnustaður og því passi hún sig að smitast ekki, þá kynni hún að smita samstarfskonurnar og svo koll af kolli. Maðurinn hennar fer í búðina og heima fyrir er spritt við hverjar dyr. Maður gerir hvað sem er til að passa vinnustaðinn og sjálfan sig í leiðinni, segir hún. 

Fólk sleppi grímunum þægindanna vegna

Jónína Salóme Jónsdóttir starfar í apótekinu Lyf og heilsa í Kringlunni. Hún segist ekki hafa sérstakar áhyggjur af því að smitast í vinnunni, hún hugsi ekki mikið um það dagsdaglega. Það eru grímur og hanskar til taks fyrir starfsfólk og sú regla viðhöfð að taka aldrei við peningum nema íklædd hönskum. Hún segir að það sé ekki hægt að neita því alveg að taka við peningum þar sem margt eldra fólk haldi fast í þann greiðslumáta. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Starfsfólk Lyfja og heilsu. Jónína Salóme stendur fyrir miðju. Það hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir, strengdir borðar og sett upp skilti.

Jónína er ekki farin að nota grímu. Hún segir að líklega sleppi margir grímunum þægindanna vegna, lyfsalar þurfi að geta talað við viðskiptavini og samtöl snúist ekki bara um að heyra það sem sagt er það þurfi líka að horfa framan í fólk. „Það myndi kannski ekki skilja mann ef maður væri með grímu,“ segir hún. 

Leist ekki á blikuna á föstudag

Jónína Salóme segir misjafnt hvort fólk fari eftir reglum, margir átti sig ekki á því að tveggja metra reglan gildi líka í apótekinu. Sumir ýti bara skiltunum til hliðar, leggist fram á afgreiðsluborðið og setji jafnvel Bónuspokana upp á það. Jónína segir að fólk taki því yfirleitt vel þegar því sé bent á reglurnar þó það séu einstaka þrjóskupúkar sem ætli sér ekki að fara eftir neinum reglum. Henni finnst eins og margir séu ekki alveg búnir að meðtaka ástandið. 

Fyrst eftir að samkomubannið tók gildi, fyrir rúmri viku, hafi fólk staðið sig, á föstudag leist henni ekki á blikuna, þá hafi allir virst búnir að gleyma reglunum. Hún hafi farið að velta því fyrir sér hvort fólk hefði nægt úthald í fjögurra vikna samkomubann. Á mánudag hafi ástandið þó skánað aftur og hún vonar að það haldist gott. 

Hún hefur ekkert orðið vör við það að fólk komi í apótekið veikt eða með einkenni.

Undrast hversu margt eldra fólk kemur

Það koma færri til þeirra í Kringluna en áður en Jónína undrast þó hversu margt eldra fólk kemur, fólk sem ætti að vera heima. Fólki finnist það kannski bara þurfa að komast eitthvað út úr húsi. Sumir segist vera hræddir en komi samt. „Þegar ég spyr hvort það sé ekki einhver sem geti farið fyrir það jánkar það en bætir oft við að sá einstaklingur sé líka í áhættuhópi,“ útskýrir hún. Jónína hefur áhyggjur af því að þetta fólk átti sig ekki á því hversu brýnt sé að það haldi sig heima. Hún bendir á að apótekið sé nú farið að bjóða upp á heimsendingu, vonandi geti þessi hópur nýtt þá þjónustu. 

Utan vinnu segist Jónína halda sig heima og verja sig eins og hún geti. „Ég fer ekki á mannamót til að geta haldið áfram að mæta til vinnu,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - rúv
Samkomubann: Færri spóka sig í Kringlunni en vanalega.

Finnst hann vel varinn í framsætinu

Tonny Espersen, strætisvagnsstjóri til fimm ára, segir að sér finnist hann ekki vera í meiri hættu en aðrir, Strætó hafi gert mikið til að tryggja öryggi vagnstjóra. Þeir hafi verið girtir af og fjórar sætaraðir milli þeirra og farþeganna. Bílstjórar séu komnir með gúmmíhanska, spritt og servíettur til að þurrka stýrið áður en næsti bílstjóri tekur við. Þá geti þeir vagnstjórar sem það kjósa verið með grímu. Tonny segist svo sem ekki alveg laus við stress vegna faraldursins og vonar að hann eigi ekki eftir að smitast, en fyrirtækið sé að minnsta kosti búið að gera talsvert til að minnka möguleikann á því. 

Kaffipásan dottin uppfyrir

Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd
Tonny Espersen segist upplifa sig öruggan í vinnunni.

Vinnutíminn hefur breyst. Nú mæta vagnstjórar ekki lengur allir á sama tíma í vinnuna. „Við hópumst ekki lengur saman til að fá okkur kaffi,“ útskýrir Tonny. Flestir fari bara beint í vagninn þegar þeir mæti til vinnu. 

Skanna vagninn um leið og þeir koma inn

Hann segir að farþegum hafi fækkað umtalsvert síðustu daga. Þar með hafi vinnuumhverfið í raun orðið öruggara af sjálfu sér. Farþegarnir hagi sér vel. „Um leið og fólk kemur inn skannar það vagninn með tilliti til þess hvar sé best að sitja þannig að það sé ekki nálægt öðrum.“ Tonny sér fyrir sér að vagnarnir aki áfram. „Já eins og er gengur þetta bara vel því farþegarnir eru svo fáir, það þurfa alltaf einhverjir að fara á milli hverfa.“ 

Greiðslufyrirkomulagið er í svolitlu limbói að hans sögn, fólk sýnir appið eða strætókortið úr fjarlægð. Það eiga að vera bráðabirgðabaukar í vögnunum fyrir þá sem borga með peningum en Strætó hvetur fólk til þess að nota app eða kort til að fækka sameiginlegum snertiflötum.

Daglegt líf Tonny hefur tekið nokkrum breytingum. „Það er ekki svo langt síðan maður byrjaði að breyta sínum vanagangi og heimsóknum,“ segir hann. Hann fari nú beinustu leið í vinnu og beinustu leið heim, hitti enga hópa og stoppi stutt í búðinni, þurfi hann þangað. 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Strætisvagn við Hlemm.

Finnst starfsfólk leikskóla hafa gleymst í umræðunni

Skólastarfsmenn segjast margir stoltir af því að vera í framlínunni á þessum tímum en sumir hafa þó áhyggjur. Ítalskur grunnskólaleiðbeinandi með undirliggjandi sjúkdóm sagðist í samtali við Spegilinn hneykslaður á því að skólarnir væru enn opnir, að hans mati ættu stjórnvöld hér að grípa til mun harðari aðgerða til að forða því að ástandið hér verði eins og í heimalandi hans.

Leikskólakennari sem Spegillinn ræddi við segir að leikskólastarfsmenn séu að sumu leyti útsettir fyrir veirunni. Það sama eigi þó líka við um fleiri framlínustéttir. „Tengslin í leikskólanum eru náin og erfitt að halda tveggja metra fjarlægð frá börnunum, svo neitar enginn tveggja ára barni um knús,“ segir kennarinn. Foreldrar hafi tekið skerðingunni vel, mórallinn í skólanum sé góður og allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum en sumum finnist starfsfólk leikskóla gleymast í umræðunni. Það sé alltaf talað um að það sé í lagi að halda skólunum opnum því börn fái væg einkenni og smiti síður aðra en það sé ekkert minnst á kennarana. Í leikskólakennarastétt sé mikið af eldra fólki og sumt með undirliggjandi sjúkdóma. Þá hafi margir áhyggjur af því að bera veiruna með sér heim, smita maka eða fjölskyldumeðlimi sem séu veikir fyrir. Kennarinn segir leikskólastjórann liðlegan, það sé engin pressa lögð á þá sem ekki treysti sér til að mæta til vinnu. Það ríki þó ákveðin óvissa um það hverjir séu í áhættuhópi. Leiðbeiningarnar mættu ap mati kennarans vera skýrari. 

Eins og staðan er fá þeir sem fara í svokallaða verndarsóttkví vegna undirliggjandi sjúkdóma og geta ekki unnið að heiman ekki endilega greidd laun, það er undir vinnuveitandanum komið. 

Bendir á að kennarar geti smitast af foreldrum

Deildarstjóri sem hafði samband við Spegilinn tekur undir áhyggjur kennarans, það gleymist að yngstu börnin séu yfirleitt kvödd með kossi foreldranna og komi svo beint í fangið á starfsmanni. Ekki virðist gert ráð fyrir þeim möguleika að foreldrarnir geti verið smitberar og borið veiruna í starfsmenn. Deildarstjórinn myndi vilja fá skýrari leiðbeiningar til að vinna eftir, segir að leikskólar útfæri starfið á mjög ólíkan hátt. Ósamræmið milli sveitarfélaga sé líka of mikið, þannig hafi starfsmönnum víða verið skipt upp í tvo aðskilda hópa en ekki í Reykjavík. Þá segir deildarstjórinn grunnskólana ekki taka við öllum börnum á forgangslista, leikskólastarfsmenn hafi sumir forfallast því börn þeirra á yngsta stigi grunnskólans fái ekki að mæta í skóla.

Sendi Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra póst 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Leikskólabörn.

Deildarstjóranum finnst starfsfólki skóla í raun vera stillt upp við vegg og það ekki metið að verðleikum. Hann gerði grein fyrir áhyggjum sínum í pósti sem hann sendi Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagðist ekki skilja hvers vegna skólunum væri ekki lokað. Í svari almannavarna var stjóranum þakkað fyrir sitt framlag og útskýrt áhættumatið væri í stöðugri endurskoðun. Þannig yrði ekki hikað við að loka skólum telji sóttvarnalæknir það nauðsynlegt. Það yrði þá kynnt með góðum fyrirvara. Nokkuð var rætt um skólahald á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þar sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að Sóttvarnastofnun Evrópu, ECDC, mælti ekki sérstaklega með því að loka skólum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Í leikskólanum Stakkaborg, skólanum var lokað eftir að upp kom COVID-19 smit.

Ungmennahópar að slæpast í búðum

Afgreiðslumaður af erlendum uppruna, segir að sér misbjóði hegðun fólks, hann vinnur næturvaktir og segir að eftir átta á kvöldin streymi unglingahópar í búðina, kannski bara til að kaupa einn orkudrykk eða nammi, slæpist þar og virði ekki fyrirmæli um að halda tveggja metra fjarlægð. „Það er ómögulegt að tryggja öryggi okkar og viðskiptavina við þessar aðstæður,“ segir hann.  Maðurinn segir starfsfólk reyni að aðskilja unglingahópana við innganginn til að aðrir viðskiptavinir hafi nóg pláss. Stundum safnist hóparnir saman inni í búðinni og það hefur komið til þess að starfsmaðurinn sem Spegillinn ræddi við hafi þurft að reka þá út. „Sumir hlusta, aðrir ekki,“ segir hann. Fólk sem komið er yfir þrítugt hagi sér flest vel, virði reglur og komi bara til að kaupa það nauðsynlegasta. 

Segist hafa misst húsnæðið út af veirunni

Starfsmaðurinn segist hafa áhyggjur af eigin heilsu, hann sé í tengslum við mjög margt fólk á hverjum degi. Hann segist finna fyrir því að sumir viðskiptavinir forðist hann, líti á hann sem smitbera. Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á líf hans utan vinnu. Hann vinnur viku og á svo frí í viku, vill helst vera virkur í frítíma sínum en á erfitt með það. Hann kemst ekki í ræktina og er í raun bara heima hjá sér. „Ég myndi alls ekki vilja smita viðskiptavini af þessu,“ segir hann. Nú er hann að leita að húsnæði því leigusalinn, sem er með undirliggjandi sjúkdóm, vill ekki leigja honum lengur, að hans sögn vegna þess að hann vinnur í stórmarkaði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti - RÚV
Tómar brauðhillur í Bónus: Áður en samkomubannið tók gildu gripu sumir til þess ráðs að hamstra.

Spjallar mikið um COVID-19 við kúnnana

Steinn Darri Sigurðarson, starfsmaður Krambúðarinnar í Lönguhlíð í Reykjavík, segist vera í þægilegri stöðu en starfsfólk stærri matvöruverslana. Krambúðin sé lítil og fáir inni á sama tíma. Honum finnist hann ekki sérstaklega útsettur fyrir smiti. „Maður veit samt aldrei,“ segir hann. Starfsmönnum búðarinnar býðst að nota bæði hanska og grímur en Steinn Darri hefur látið hanskana nægja enn sem komið er. „Svo eru allir duglegir að spritta,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Steinn Darri.

Steinn Darri segir faraldurinn ekki hafa haft nein neikvæð áhrif á líðan sína, en hann spjallar mikið um faraldurinn við kúnnana, segir að fólk hafi þörf fyrir að tala og það tali ekki um neitt annað en COVID-19. Kannski má segja að hann hafi tekið sér ákveðið sálgæsluhlutverk. 

Lítur til spritttakmarkana danskra verslana

Það koma færri í búðina en áður, en ekki mikið færri. Steinn Darri segist hafa búist við minni traffík, allir séu svo panikkaðir. 

Hann segir fólk almennt sýna starfsfólki búðarinnar tillitsemi, það hafi enginn hóstað á hann. Sumir mæti með hanska, jafnvel með grímur og fari mjög varlega og oft sé fólk í leit að spritti. Steinn Darri segir dæmi um að fólk kaupi fimm sprittflöskur í einu. Það hafa ekki verið sett takmörk á sprittkaupin en hann segir danskar matvöruverslanir hafa farið mjög sniðuga leið. Ein flaska kostar þar um 500 kr, en fólk sem vill kaupa tvo sprittbrúsa þarf að reiða fram nokkra þúsund kalla. 

Leiðinlegt þegar litið er á hann sem smitbera

Langflestir viðskiptavinir koma vel fram en Steinn hefur rekið sig á leiðinlegt viðmót meðal örfárra, það sé eins og fólk virðist líta á hann sem hugsanlegan smitbera, vilji ekki að hann snerti vörurnar eða raði í poka fyrir það. „Flest fólk sem vill passa sig sérstaklega bendir manni samt bara kurteislega á það.“

Steinn Darri segir faraldurinn enn sem komið er ekki hafa haft mikil áhrif á samskipti hans við aðra en nefnir þó að margir vina hans séu í sjálfsskipaðri sóttkví til að hlífa fjölskyldumeðlimum. „Ég myndi allavega ekki fara að hitta ömmu núna,“ segir hann að lokum.

Umfjöllunin hefur verið uppfærð með lýsingum frá erlendum starfsmanni stórmarkaðar. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV