Jónína er ekki farin að nota grímu. Hún segir að líklega sleppi margir grímunum þægindanna vegna, lyfsalar þurfi að geta talað við viðskiptavini og samtöl snúist ekki bara um að heyra það sem sagt er það þurfi líka að horfa framan í fólk. „Það myndi kannski ekki skilja mann ef maður væri með grímu,“ segir hún.
Leist ekki á blikuna á föstudag
Jónína Salóme segir misjafnt hvort fólk fari eftir reglum, margir átti sig ekki á því að tveggja metra reglan gildi líka í apótekinu. Sumir ýti bara skiltunum til hliðar, leggist fram á afgreiðsluborðið og setji jafnvel Bónuspokana upp á það. Jónína segir að fólk taki því yfirleitt vel þegar því sé bent á reglurnar þó það séu einstaka þrjóskupúkar sem ætli sér ekki að fara eftir neinum reglum. Henni finnst eins og margir séu ekki alveg búnir að meðtaka ástandið.
Fyrst eftir að samkomubannið tók gildi, fyrir rúmri viku, hafi fólk staðið sig, á föstudag leist henni ekki á blikuna, þá hafi allir virst búnir að gleyma reglunum. Hún hafi farið að velta því fyrir sér hvort fólk hefði nægt úthald í fjögurra vikna samkomubann. Á mánudag hafi ástandið þó skánað aftur og hún vonar að það haldist gott.
Hún hefur ekkert orðið vör við það að fólk komi í apótekið veikt eða með einkenni.
Undrast hversu margt eldra fólk kemur
Það koma færri til þeirra í Kringluna en áður en Jónína undrast þó hversu margt eldra fólk kemur, fólk sem ætti að vera heima. Fólki finnist það kannski bara þurfa að komast eitthvað út úr húsi. Sumir segist vera hræddir en komi samt. „Þegar ég spyr hvort það sé ekki einhver sem geti farið fyrir það jánkar það en bætir oft við að sá einstaklingur sé líka í áhættuhópi,“ útskýrir hún. Jónína hefur áhyggjur af því að þetta fólk átti sig ekki á því hversu brýnt sé að það haldi sig heima. Hún bendir á að apótekið sé nú farið að bjóða upp á heimsendingu, vonandi geti þessi hópur nýtt þá þjónustu.
Utan vinnu segist Jónína halda sig heima og verja sig eins og hún geti. „Ég fer ekki á mannamót til að geta haldið áfram að mæta til vinnu,“ segir hún.