Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólki utan EES og EFTA óheimilt að koma til Íslands

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, verður óheimilt að koma til Íslands frá og með deginum í dag, nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda. Þetta kemur fram í drögum að reglugerð sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun. Ekki er búist við því að þetta hafi mikil áhrif á komur ferðamanna, enda hefur útbreiðsla COVID-19 veirunnar dregið verulega úr straumi ferðamanna hingað til lands.

Frá þessu er greint á vef dómsmálaráðuneytisins.

Þar segir meðal annars að ríkisborgarar Schengen svæðisins og aðstandendur þeirra muni áfram geta komið óhindrað inn á svæðið. Þá sé sérstaklega kveðið á um að útlendingar sem hafa dvalar- eða búseturétt innan svæðisins eigi einnig rétt á að koma. Starfsfólk i heilbrigðisþjónustu og þeir sem sinna farmflutningum eru undanþegnir þessum takmörkunum.

„Reglugerðin er sett í kjölfar þess að þann 17. mars samþykkti leiðtogaráð Evrópusambandsins tilmæli til allra aðildarríkja sambandsins og annarra ríkja Schengen samstarfsins um að draga tímabundið úr ferðum fólks inn á Schengen svæðið í því skyni að hægja á útbreiðslu kórónaveirunnar. Tilmælin, sem gilda í 30 daga, kveða á um að takmarka skuli komur þriðju ríkisborgara inn á svæðið við nauðsynlegar erindagjörðir,“ segir í tilkynningunni.

Leggja áherslu á sérstöðu Íslands

Þá segir að áhrif þessa næstu vikurnar verði væntanlega takmörkuð, enda sé komum ferðamanna hingað til lands nú þegar að langmestu leyti sjálfhætt vegna útbreiðslu veirunnar.

Áslaug Arna sagði í samtali við fréttastofu nú síðdegis að stjórnvöld hafi litið svo á að mikilvægt væri að taka þátt í lokun landamæra ESB og Schengen ríkjanna. Á öllum fundum hafi íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á sérstöðu Íslands og hversu mikið landið eigi undir flugsamgöngum. Áslaug Arna segir að búast megi við því að tillit verði tekið til þessarar sérstöðu þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. Þá leggur Áslaug Arna áherslu á að ferðabannið nái eingöngu til ferðamanna, en ekki til vöruflutninga.

Loks segir Áslaug Arna að enn verði hægt að fljúga til og frá Bretlandi, enda séu Bretar enn skilgreindir innan ESB.