Fólki óneitanlega brugðið

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Líkt og flestir, ef ekki allir, Grindvíkingar fann Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, vel fyrir jarðskjálftunum á ellefta tímanum í kvöld. Hann segir bæjarbúa almennt taka skjálftahrinunni með jafnaðargeði, og treysti vísindamönnum fyrir því að aðvara þá ef eitthvað meira gerist.

„Já, ég fann alveg svona rækilega fyrir honum. Þetta var nú sýnilega stærri skjálfti en verið hefur núna í þessari hrinu síðustu sex daga,“ segir Fannar. Hann segir að þetta ætti ekki að koma bæjarbúum á óvart, enda hafi jarðvísindamenn sagt að búast megi við snörpum skjálftum í grennd við fjallið Þorbjörn. Fólki hafi þó óneitanlega brugðið í kvöld. „Auðvitað getur fólki brugðið óþermilega við að fá skjálfta af þessari stærðargráðu,“ segir Fannar.

Íbúar taka skjálftunum með jafnaðargeði að sögn Fannars, enda búnir að fá íbúafund með vísindamönnum sem greindu frá mögulegum sviðsmyndum. Líkur á eldgosi eru um tíu prósent, jafnvel þó kvikuinnskotið haldi áfram. „Auðvitað er þetta vel vaktað og við treystum okkar vísindamönnum fyrir því að aðvara okkur og fylgjast með því að ekkert alvarlegra sé í vændum. Fram að því reyna menn bara að halda ró sinni,“ segir bæjarstjórinn.

Viðtalið við hann frá því í miðnæturfréttum útvarps má heyra í spilaranum hér að ofan.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi