Fólk virðist hafa meiri áhyggjur af efnahag en smiti

25.03.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Um 29% svarenda í könnun MMR kváðust hafa miklar áhyggjur af því að smitast af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 en 35% mjög litlar eða engar áhyggjur. Könnunin var gerð 18. til 20. mars. 

Áhyggjur fólks af efnahagslegum afleiðingum veirunnar eru mun meiri. Alls kváðust 79% svarenda hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag en einungis 6% kváðust hafa frekar litlar, mjög litlar eða engar áhyggjur.

Þá kváðust 34% svarenda hafa miklar áhyggjur af alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu veirunnar og 21% kváðust hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar.

Svarendur á aldrinum 18-29 ára reyndust hvort í senn ólíklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast af kórónaveirunni eða af áhrifum hennar á íslenskan efnahag. Svarendur á aldrinum 30-49 ára reyndust líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur af því að smitast af kórónaveirunni en þeir sem eru 68 ára og eldri reyndust líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni.

 

 

Hér má lesa meira um könnun MMR og aðferðarfræðina að baki henni. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV