Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólk tilbúið að panta jólasteikina á vefnum

20.12.2019 - 17:00
Mynd:  / Pexels
Því er spáð að netverslun springi út á næstu árum hér á landi. Mestur hefur vöxturinn verið í netverslun með matvæli.

Það eru 60 ár frá því að Hagkaup var stofnað í húsi sem var áður fjós við Miklatorg Í Reykjavík. Upphaflega var áherslan lögð á póstverslun sem höfðaði fyrst og frest til viðskiptavina á landsbyggðinni. Kannski má segja að netverslun hafi tekið við af póstversluninni en það var löngu seinna. Hins vegar hefur verslun á netinu vaxtið hratt. Hér innanlands nam hún 2017 tæpum 3% af heildarveltu innlendrar smásöluverslunar eða tæpum níu milljörðum króna. Erlend netverslun Íslendinga nam röskum fjórum milljörðum króna. Hlutfall innlendrar netverslunar hefur verið talsvert lægra en í nágrannalöndum okkar.

Á eftir að springa út

Í rannsókn EMC í samvinnu við Hugsmiðjuna er því spáð að netverslun springi út á næstu fimm árum. Vöxturinn síðustu tvö ár hefur fyrst og fremst verið í matvöru. Nú þegar fólk er sveitt að gera jólainnkaupin er hægt að fá jólasteikina senda heim með tilheyrandi meðlæti og nota frekar tímann til að skreyta jólatréð.

„Við erum nú farin að bjóða upp á nánast allar tegundir. Það er andabringan, kalkúnn, hamborgarhryggur og læri í öllum sínum myndum, því fólk er tilbúið að panta steikina á vefnum,“ Segir Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa. 

Eykst og eykst

Heimkaup og Aha er þau tvö netverslunarfyrirtæki sem bjóða upp á heimsendingar á matvöru og öðrum heimilisvörum. Aha byrjaði 2017 og rúmt ár er frá því að Heimkaup byrjuðu. Netverslunin Boxið hefur reyndar boðið upp á þessa þjónustu frá 2007 en vefsíða fyrirtækisins hefur ekki verið virk um tíma. Aha selur vörur frá Nettó. Helgi Már Þórðarson, annar eigenda Aha, segir að vöxturinn hafi verið mikill.

„ Í hverjum einasta mánuði. Þetta eykst og eykst. Þetta er þannig að þegar fólk fattar hvað þetta er þægilegt og þarf ekki að fara lengur út í búð. Margir, til dæmis milli 30 og 50 ára eru með stór heimili, með börn og eru að sækja og skutla. Það þekkja allir þetta. Og þurfa svo að fara í búðina líka,“ segir Helgi Már.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Helgi Már Þórðarson

Yfir 50 þúsund vörunúmer

Heimkaup eru með sinn eigin lager. Guðmundur framkvæmdastjóri segir að vöruúrvalið sé þrefalt  meira en hjá stærstu stórmörkuðunum. Vörunúmerin séu yfir 50 þúsund. Það helgist meðal annars af því að Heimkaup sé ekki með dýrt hillupláss og fleira.
Vöxturinn hefur líka verið hraður hjá Heimkaupum.

„ Þetta er það sem keyrir vöxtinn hjá okkur. Fleiri og fleiri panta á netinu. Og þeir sem byrja halda áfram,“ segir Guðmundur.

En er hætt við því að hin hefðbundna verslun láti í minni pokann fyrir vefverslun með matvæli? Guðmundur segir að þetta taki tíma en vægi hefðbundinna verslana eigi eftir að minnka.

 „Fleiri og fleiri kaupa á netinu og það segir sig sjálft að einhvers staðar þarf að taka þessa verslun. Hún kemur þá af hefðbundinni verslun.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Guðmundur Magnason

Mun vaxa gríðarlega

Helgi Már segir að netverslun með matvæli eigi eftir að vaxa gríðarlega á næstu árum. Hann er ekki á því að hin hefðbundna verslun hverfi.

„Það verður hins vegar alltaf risastór hópur sem vill fara í búðina og þukla á ávöxtunum og grænmetinu sjálft. Vill ekki láta einhvern annan ákveða hvernig kívíið á að vera, hvort það eigi að vera lint eða hart og svo framvegis. En það er ákveðinn hópur sem stækkar ört sem kýs þetta, að láta okkur bara sjá um þetta,“ segir Helgi Már.

Vistvænt?

En er það vistvænt að bílar keyri þvers og kruss, aðallega um höfuðborgarsvæðið með mat til fólks? Bæði fyrirtækin eru með rafmagnsbíla. Helgi Már segir að hin hefðbundnu innkaup séu klárlega ekki vistvæn vegna þess að flestir fari á bíl í búðina. Hann segir fjölskyldur sem eru með tvo bíla gætu jafnvel losað sig við annan bílinn með því að panta á vefnum.

„Við erum með 20 rafmagnsbíla núna. Búin að keyra á rafmagni í tvö ár. Við sjáum mikil tækifæri í því að taka bílana af götunum og bjóða Íslendingum upp á þægilegri leið og fá þetta með rafmagnsbílum.“

Guðmundur segir að fjöldi bíla fari í ferðir fimm sinnum á dag. Leiðirnar séu skipulagðar þannig að keyrt er eins stutt og mögulegt er. Einn bílstjóri er kannski að afhenda 16 fjölskyldum mat í hverri ferð.

„Það sér hver maður að ef þessar 16 fjölskyldur þyrftu allar að keyra út í búð og jafnvel þyrftu að fara í fleiri en eina búð þá væri það mun meira álag á gatnakerfið. Flestir okkar bílar eru rafbílar. Þannig að ég vil meina að þetta sé mjög vistvænt og í raun hagkvæmt fyrir samfélagið að það sé einn maður að þjónusta 16 fjölskyldur á tveimur tímum heldur en að þær séu að allar að keyra út um hvippinn og hvappinn,“ segir Guðmundur.

Drónar og sjálfkeyrandi bílar

En hver verður framtíð netverslunar nú þegar fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína? Aha hefur verið með tilraunir undanfarin þrjú til fjögur ár með að nota dróna til að senda vörur. Helgi Már segir að nýjustu drónarnir fari um 100 kílómetra og taki tvö til þrjú kíló.

„Við förum að fara með matvöruna í drónanum eftir nokkur ár. Veitingarnar eru farnar að fara með dróna, brauðristar, tekatla og gjafavöru er hægt að senda með drónum. Þetta sparar mikið, flýtir fyrir og það er mikill áhugi á þessu,“ segir Helgi Már en bendir á að þessi verslun sé bara brotabrot af allir verslun sem er núna.

Guðmundur telur að í framtíðinni verði aðrar lausnir en drónar að minnsta kosti þegar kemur að magni. 

„Sjálfkeyrandi bílar eru hlutir sem menn horfa mikið til. Svo er þetta líka á öðrum sviðum,“ segir Guðmundur. Nú sé verið að þróa vélmenni sem getur svarað viðskiptavinum. Allt miði að því að gera þetta skilvirkara.