Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fólk sameinast í brauðtertugleðinni

Mynd: RÚV / RÚV

Fólk sameinast í brauðtertugleðinni

21.05.2019 - 16:16

Höfundar

„Þetta átti bara að vera algjört grín. Mér fannst þetta bara ægilega fyndið nafn hjá mér, Brauðtertufélag Erlu og Erlu, og kannski vonaðist til þess að það kæmu þarna inn tíu manns,“ segir Erla Hlynsdóttir, önnur Erlanna sem stofnuðu brauðtertuhóp sem í eru nú yfir tvö þúsund manns.

Brauðtertufélag Erlu og Erlu kallast rúmlega tvö þúsund manna hópur á Facebook sem stofnaður var á dögunum. Á síðu félagsins deila áhugamenn um brauðtertur myndum, uppskriftum, góðum ráðum og skiptast á skoðunum um hvaða majónes hentar best til brauðtertugerðarinnar. Erla Hlynsdóttir og Erla Gísladóttir eru forsprakkar Brauðtertufélagsins Erlu og Erlu.

„Þetta byrjaði bara sem saklaust grín. Ég var bara að leita að upplýsingum fyrir barnaafmæli og setti inn status á föstudagskvöldi. Bara svona húsmóðir að undirbúa barnaafmæli seint á föstudagskvöldi,“ segir Erla Gísladóttir um tildrög hins fjölmenna hóps brauðtertuunnenda. Erla Hlynsdóttir virðist hafa séð færslu nöfnu sinnar og umsvifalaust brugðið á það ráð að stofna grúppuna Brauðtertufélag Erlu og Erlu, sem nú tveimur vikum síðar inniheldur rúmlega tvö þúsund manns. „Það bara hrúgast inn myndirnar af meistarastykkjunum af brauðtertum og ég veit miklu meira um brauðtertur í dag en þá, ég hafði bara gert tvær brauðtertur áður en þessi hópur var stofnaður,“ segir Erla Gísladóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þær Erlur komu færandi hendi í viðtal við Morgunútvarpið á Rás 2.

Erla Hlynsdóttir gerði sér ekki í hugarland að snjó(majónes)boltinn myndi rúlla svo skarpt. „Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt. Þetta átti bara að vera algjört grín. Mér fannst þetta bara ægilega fyndið nafn hjá mér, Brauðtertufélag Erlu og Erlu, og kannski vonaðist til þess að það kæmu þarna inn tíu manns,“ segir Erla Hlynsdóttir sem tekur það fram að þetta hafi fljótlega breyst úr einkabrandara í eitthvað annað. „Tveimur dögum seinna voru komin hundrað manns, ég deildi því afar stolt að þarna væru komin inn þetta margir í hópinn og núna eru komin tvö þúsund. Þetta er bara orðið alvöru.“

Í hópnum má sjá glöggt hversu öflugt hugmyndaflug brauðtertusmiðir hafa en Wu-Tang-terta var smíðuð fyrir sérstakt tilefni, Hataratertan var áberandi síðustu daga ásamt áhugaverðri uppskrift að brauðtertu með nautahakki, spældum eggjum, brúnuðum lauk og rækjusalati. Loks eru miklar vangaveltur um hvað sé heppilegast að drekka með brauðtertum og hvort fólk sé almennt að nota majónes eða sýrðan rjóma. „Það er þarna fólk alls staðar að af landinu, á öllum aldri. Fólk virðist þarna sameinast í brauðtertugleðinni. Það er bara ótrúlega fallegt og skemmtilegt að sjá það,“ segir Erla Gísladóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: Ylfa Geirsdóttir/Rósa Birgitta - RÚV
Ylfa Geirsdóttir og Rósa Birgitta Ísfeld fengu sér Wu Tang brauðtertu áður en þær héldu á tónleika með samnefndri hljómsveit.

En hver er svo lykillinn að góðri brauðtertu? „Það er náttúrulega bara nóg af majónesi. Fólk er með mjög sterkar skoðanir á því hvaða tegund af majónesi á að nota, sumar nota Gunnars innan í og smyrja með Hellmanns að utan af því það er hvítara. Það eru alls konar trix, til dæmis að kreista sítrónu út í majónesið. Þetta er bara þjóðaríþrótt sem hefur verið í gangi frá örófi alda og það er bara að koma í ljós núna. Þetta er bara mikil menningararfleifð, þessi brauðtertugerð,“ segir Erla Gísladóttir.

Mynd með færslu
Hvaða majónes er hentugast?
Mynd með færslu
Brauðtertufélag Erlu og Erlu virðist veita mörgum mikla gleði.
Mynd með færslu
Margar og mismunandi vangaveltur koma upp innan hópsins.

Það mætti ætla að brauðtertur væru ekki lengur eingöngu bornar fram við fermingarveislur eða álíka tilefni og fólk er ekki eins feimið að skreyta hversdagslegt kaffiboð með brauðtertum eða hinn sívinsæla dögurð. „Ég sá gönguhóp um daginn sem var með brauðtertu í nesti. Þetta er eiginlega bara stór samloka þannig séð. Í bók Helgu Sigurðardóttur, Matur og drykkur, segir hún að brauðtertur séu tilvaldar í nesti. Ég skyldi ekki hvernig fólk færi með þær í ferðalagið en sú sem bjó hana til setti hana ofan á lokið á ísboxi, setti svo boxið yfir svona eins og hjálm og geymdi það þannig í töskunni,“ segir Erla Hlynsdóttir.

Brauðtertufélag Erlu og Erlu fer ört stækkandi og ljóst að brauðtertan snertir djúpan streng hjá þjóðinni. Fjölmargir í hópnum kalla nú eftir því að haldinn verði viðburður á næstu grösum, eins konar brauðtertuhátíð og því ljóst að vert er að fylgjast með hópnum Brauðtertufélag Erlu og Erlu á næstunni.