Fólk með geðraskanir og fíknivanda fær breytta þjónustu

24.03.2020 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Rauði krossinn hefur þurft að loka mörgum af sínum úrræðum meðan hert samkomubann er í gildi vegna kórónuveirunnar. Flóttafólk fær ekki aðstoð nema í gegnum síma og internet og athvörf fyrir fólk með geðraskanir og fíknivanda verða ekki starfrækt. Forstöðumaður Rauða kross Reykjavíkur segir hópin viðkvæman. Hann þoli illa álag og margir eigi á hættu að fara út af sporinu þegar þjónustan er skert eða ekki fyrir hendi. 

Rauði krossinn hefur lokað tímabundið Vin sem er athvarf og dagsetur fyrir fólk með geðraksanir. Þangað leita að meðaltali um 32 á dag. 

Marín Þórsdóttir, forstöðumaður Rauða kross Reykjavíkur, segir að þangað leiti þeir sem eru mikið félagslega einangraðir og nýti ekki önnur úrræði. 

„Þarna er heit máltíð í hádeginu og félagsskapur sem er þessu fólki mjög mikilvægur og mikilvægt að missa ekki niður á tímum sem þessum. Því það er oft erfitt að byggja það upp þegar þessu er lokið.“

Rauði krossinn hefur þurft að loka þessum úrræðum meðan samkomubann er í gildi.  

„Það eru þarna einstaklingar sem eru töluvert einangraðir oft á tíðum og við höfum þurft að breyta okkar þjónustu við þá og breytt henni þá helst í símaþjónustu og annað slíkt. Allra viðkvæmasta hópinn höfum við reynt að heimsækja eftir bestu getu til að minnka þann skaða sem mikil einangrun kann að vera fyrir þennan hóp.“

Þá hefur Rauði krossinn ekki getað þjónustað flóttafólk með sama hætti og áður var en sá hópur á lítið sem ekkert tengslanet hér á landi. Rauði krossin aðstoði vel á annað hundrað flóttamenn hér á landi í fyrra.

„Við höfum þá reynt að færa þjónustuna yfir á netið eða í síma en auðvitað er þetta ekki sama þjónusta og var.“

Þessi hópur á einnig erfitt með að fylgjast með fréttum af kórónuveirunni og tilmælum almannavarna vegna hennar.

„Þetta er hópur sem upplifir sig ekki mjög upplýstan um stöðu mála. Auðvitað eru allir að reyna að gera sitt besta.“

Þá hefur Frú Ragnheiður, sem er skaðaminnkunarþjónusta fyrir fólk sem notar vímuefni í æð, þurft að breyta sinni starfsemi. Um 450 manns leituðu til Frú Ragnheiðar í fyrra og stór hluti þess hóps er heimilislaus. 

Konukoti verður haldið opnu lengur en vanalega eða allan sólahringinn þrátt fyrir samkomubann. Þar eru gistirými fyrir 12 konur. Þangað leituðu 112 konur í fyrra.

„Þetta er til þess að vernda þessar konur svo að þær séu ekki á vergangi og reynum þannig að koma í veg fyrir að þær séru í samskiptum við fólk sem gæti verið með smit án þess að vita af því. Fólk er kvekkt. Og við bíðum bara efti að þetta gangi yfir.“

Árétting: Rétt er að geta þess að starfsemi Frú Ragnheiðar hefur verið breytt en ekki hætt. Allir skjólstæðingar eru formlega skimaðir eftir COVID-smiti í gegnum síma þar sem farið er eftir spurningalista. Allir sem þangað leita fá upplýsingaskjal með almennum upplýsingum um COVID og upplýsingaskjal um COVID og vímuefnanotkun á notendavænu tungumáli. Síðan hefur starfsfólk hringt í fólk á daginn og tekið á þeim stöðuna.

 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi