„Fólk heldur stundum hreinlega að ég sé drukkin"

26.03.2020 - 09:51
Mynd: RÚV / RÚV
Þingmaðurinn og friðarsinninn Steinunn Þóra Árnadóttir hefur glímt við taugasjúkdóminn MS í 20 ár. Hún hefur setið Alþingi frá 2014 og berst þar meðal annars fyrir hagsmunum öryrkja. Steinunn Þóra er gestur Sigmars Guðmundssonar í þættinum Okkar á milli sem sýndur er á RÚV í kvöld og segir meðal annars frá óvæntum breytingum sem nýverið urðu í fjölskyldu hennar og sjúkdóminum sem hefur fylgt henni öll fullorðinsárin.

Helsta einkenni MS-sjúkdómsins er jafnvægisleysið sem Steinunn finnur mikið fyrir. Sökum þess á hún erfitt með gang og segir að það geti hæglega litið út fyrir að hún hafi fengið sér ríflega í glas þegar hún gengur um. Hún fái enda oft augnagotur frá samferðarfólkinu þegar jafnvægið bregst henni en hún getur hlegið að því. „Það getur verið dálítið óþægilegt þegar maður er stjórnmálamaður að líta út fyrir að hafa drukkið hvítvínsflösku með morgunmatnum," segir hún glettin.

Á gönguferðum sínum styðst hún því oft við staf eða hækju en grínast með að hún geri það í raun fyrst og fremst til að brynja sig fyrir almenningsálitinu. Fólk hiki nefnilega ekki við að dæma hana fyrir meintan drykkjuskap en þegar það er sýnilegt að hún sé með líkamlegan sjúkdóm sé viðhorfið allt annað. „Fólk heldur stundum hreinlega að ég sé drukkin en bregst öðruvísi við því en þegar ég er með staf. Það er alveg ótrúlegt að hvernig þá birtist til dæmis alltaf stóll fyrir mig að setjast á," segir hún kímin og kveðst þakklát fyrir hjálpsemina. 

Rætt er við Steinunni Þóru Árnadóttur í þættinum Okkar á milli sem sýndur er á RÚV í kvöld klukkan 22.20. 

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
sigmarg's picture
Sigmar Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi