Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Fólk gerir ekki ráð fyrir að hún sé hættuleg“

Mynd: RÚV / RÚV

„Fólk gerir ekki ráð fyrir að hún sé hættuleg“

29.11.2019 - 15:15

Höfundar

„Ég held við þorum ekki öll að vera svona stór karakter eins og hún en það væri skemmtilegt að læra svolítið af henni,“ segir Bára Halldórsdóttir aktívisti um Erin Brockovich. Samnefnd kvikmynd með Juliu Roberts í aðalhlutverki er sýnd á RÚV 20:50 á laugardagskvöld.

Kvikmyndin um Erin Brockovich byggist á sannsögulegum atburðum í lífi einstæðrar atvinnulausrar móður sem fer í mál við lækninn sinn. Hún tapar málinu en tekst að sannfæra lögfræðing sinn um að ráða sig í starf í sárabætur fyrir tapið. „Þótt ég sé ekki með reynslu þá á ég börn og ég þekki fólk. Ég er klár og ég legg hart að mér, ég fer ekki héðan nema ég sé með vinnu,“ segir hún og lögfræðingurinn, heillaður af ákveðni hennar, ræður hana í starfið þrátt fyrir reynsluleysið. Enginn tekur þessa orðljótu og druslulegu konu alvarlega til að byrja með en þegar hún byrjar að rannsaka dularfullt fasteignamál fá margir að finna fyrir því að þessi kjaftfora einstæða móðir er ekkert lamb að leika sér við og að hana skyldi ekki vanmeta.

Aktívistinn og listamaðurinn Bára Halldórsdóttir sá kvikmyndina Erin Brockovich þegar hún kom fyrst út árið 2000 í leikstjórn Stevens Soderbergh og áttaði sig fljótt á að þarna væri á ferðinni persóna sem hún dáðist að og gæti samsamað sig við. „Hún var svo orðfrökk og skemmtileg og það er gaman að hlusta á hana,“ rifjar Bára upp kímin.

Myndin segir frá því hvernig ólíkir heimar og stéttir mætast þegar þessi fátæka kona nær að tengja saman stórfyrirtækin og hina stritandi stétt og koma á samtali. „Þarna fáum við innsýn inn í annars vegar hversdagslíf einstaklinga sem sjá ekki alveg heildarmyndina og svo stórfyrirtækið. Erin er manneskjan sem tengir þessa tvo hópa með því að tala við þá báða,“ segir Bára. „Hún nær að sannfæra lögfræðingana um að það þurfi að gera eitthvað í málunum en líka að tala við fólk sem er eins og hún, venjulegt fólk sem berst fyrir daglegu lífi sínu.“

Bára heillaðist af smáatriðum í sviðsmynd og búningum í myndinni sem notaðir eru til að varpa ljósi á misskiptinguna í samfélaginu og persónu Erin. „Það hvernig hún klæðir sig er ekki í tísku en það sýnir styrkleika hennar sem lítillar manneskju sem er ofsalega persónuleg og hversdagsleg. Þetta gerir það meðal annars að verkum að hún kemst í gögn sem hún á ekki að komast í því fólk gerir ekki ráð fyrir að hún sé eitthvað hættuleg,“ segir Bára og glottir.

Að lokum er þetta mynd um það að lifa sem einstaklingur í eigin sannleika samkvæmt Báru. „Hún er bara að lifa sínu venjulega lífi og svo sér hún eitthvað sem hún vill gera eitthvað í og hefur þessi miklu áhrif,“ segir hún. „Ég held við þorum því ekki öll að vera svona stór karakter eins og hún en það væri skemmtilegt að læra svolítið af henni.“

Kvikmyndin Erin Brockovich er á dagskrá RÚV 20:50 á laugardagskvöld. Hún er hluti af sýningu á röð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Einstaklega vel leikin mynd um áráttu-þráhyggjuröskun

Kvikmyndir

Tíminn fer mjúkum höndum um Nútíma Chaplins

Kvikmyndir

Heltekinn af hrifningu yfir John Travolta