Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fólk fellir tár við Bowie vegg á Skaganum

Mynd: Akranes / Akranes

Fólk fellir tár við Bowie vegg á Skaganum

07.06.2019 - 11:48

Höfundar

Fólk rekur í rogastans og fellir jafnvel tár þegar það ber augum vegg einn við aðalgötuna á Akranesi. Myndverk á veggnum er tileinkað minningu tónlistarmannsins Davids Bowie og um helgina verður haldin sýning við vegginn á ýmsum gersemum tengdum stjörnunni.

Myndatökur eru tíðar við Kirkjubraut 8 í miðbæ Akraness. Aðdráttaraflið er veggur sem skartar stóru vegglistaverki til minningar um David Bowie. Björn Lúðvíksson og Halldór Randver Lárusson eiga heiðurinn af verkinu, sem hefur staðið þarna í tvö ár. Það var dálæti þeirra á Bowie og snilli hans sem varð kveikjan að því. Björn var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

„Þetta byrjaði hjá mer með þvi að ég fór að mála steina, Bowie steina, ég var rreyndar búinn að mála fánasteina en síðan fór ég að mála Bowie steina og setja þá niður við Akranesvita. Ég gerði fjóra steina og það eru heiðurssteinar sem vísa í ýmis tímabil hjá Bowie. “

Hugmyndina að veggnum fékk Björn eftir að Bowie lést. Minningarveggir tileinkaðir tónlistarmanninum eru víða um heim, sá frægasti í Brixton í London þar sem Bowie ólst upp. Björn segir að aldrei hafi annað komið til greina en að slíkur veggur myndi prýða Skagann. 

Veggurinn er við aðalgötuna  og fólk rekur i rogastans í einhverju krummaskuði á islandi.“

„Viðbrögðin hafa verið mjög góð og ég hef frétt af fólki sem hefur bara tárast,“ bætir Björn við og hlær. 

Um helgina standa Björn og Halldór fyrir sýningu við vegginn þar sem ýmsir dýrgripir tengdir Bowie, sem félagarnir hafa sankað að sér í gegnum tíðina, verða til sýnis. 

„Við eigum flest allar plöturnar ef ekki allar og ýmislegt dót sem maður hefur keypt og annað. Svo er Halldór grafískur hönnuður og hann hefur verið að gera allskonar Bowie myndir og prentað út og gert myndir á boli. Við ætlum að reyna að sýna eitthvað af þessu, það er alveg ótrúlega mikið þegar maður er farinn að grafa.“

Sýningin stendur yfir frá klukkan 13-17 laugardag og sunnudag.