Fólk fast á Tjörnesi og berserksgangur á Akureyri

29.02.2020 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í mörg horn að líta í nótt og í gærkvöld. Fólk sat fast með bíla sína á Tjörnesi á áttunda tímanum í gærkvöld þar sem var kolvitlaust veður og segir lögreglan að einhver börn hafi verið í bílunum. Björgunarsveit frá Húsavík kom fólkinu til bjargar.

Á tíunda tímanum barst lögreglunni svo tilkynning um að maður gengi berserksgang í íbúð á Akureyri. Hann var sagður vera að brjóta allt innandyra. Þegar lögreglan kom á vettvang komst ró á ástandið og var ekki þörf á frekara inngripi. 

Um eitt leytið í nótt var síðan tilkynnt um að kona væri að ógna manni með hnífi í heimahúsi. Konan hafði lagt niður vopnið þegar lögreglan kom á staðinn. Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að þetta hafi verið sambýlisfólk og að séð hafi verið til þess að það yrði aðskilið það sem eftir lifði nætur. 

Undir morgun ætlaði lögreglan síðan að aka ölvuðum manni heim úr miðbæ Akureyrar en hann þoldi ökuferðina illa og ældi í bílnum.  Lögreglan hafði einnig afskipti af manni með hnúajárn og einn ökumaður reyndist vera undir áhrifum fíkniefna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi