Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fólk er of gjarnt á að skipta yfir í ensku

31.08.2018 - 10:48
Með því að tala ensku við þá sem eru að læra íslensku er fólki haldið utan við málsamfélagið og íslenska menningu, segir íslenskukennari á Ísafirði. Enskur nemandi á námskeiðinu hefur náð góðum tökum á málinu þrátt fyrir að hafa aðeins komið einu sinni áður til landsins.

Eiga það sameiginlegt að vilja læra íslensku

Árlega stendur Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði fyrir íslenskunámskeiði fyrir útlendinga. Sumir búa á Íslandi, aðrir koma sérstaklega til landsins til að taka þátt í námskeiðinu. „Ég ákvað að læra íslensku af því að mér finnst tungumálið mjög fallegt,“ segir Sarah Luise Schubarth, frá Þýskalandi. „Ég er að læra íslensku af því að ég er að rannsaka Halldór Laxness, ég er doktorsnemi frá Bandaríkjunum,“ segir Jodie Childers frá Bandaríkjunum. „Kannski mig langar að búa hérna einhvern tímann,“ segir Christopher May-Townsend frá Englandi. „Mér finnst gaman að ferðast á Íslandi og þetta er tíunda skiptið mitt á Íslandi núna,“ segir Annelies Barentsen frá Belgíu.

Mikilvægt að skipta ekki yfir í ensku

Margir nemendanna hafa komið oft til landsins, Amy er þó undantekning. Hún hefur komið einu sinni áður og dvaldi þá í viku. „Ég var að hlusta á íslenska tónlist og mér hefur alltaf fundist gaman að hlusta á tónlist. Og ég bara ákvað að læra tungumálið,“ segir Amy Whitfield frá Englandi. Hvaða hljómsveit var það? „Auðvitað Sigur Rós,“ segir Amy. Hvað finnst þér erfiðast við að læra íslensku? – „Þegar fólk er að skipta yfir í ensku.“ „Það er einmitt Akkilesarhæll þeirra sem að læra íslensku að fólk er of gjarnt að skipta yfir á ensku. Og engum er greiði gerður með því. Þú heldur fólki í raun fyrir utan málsamfélagið, utan íslenska menningu með því að hleypa því ekki inn og hjálpa því að læra íslensku,“ segir Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, kennari á námskeiðinu. Hann segir það þó henta betur að vera með námskeiðið á Ísafirði en fyrir sunnan þar sem það sé auðveldara að virkja fólk í bænum til að tala íslensku við nemendurna. 

Hlustar á Rás 2

Íslenskan virðist liggja vel fyrir hlédræga myndhöggvaranum Amy en íslenska er fyrsta erlenda tungumálið sem hún tileinkar sér. Hún segist mest læra á því að skrifa mikið og læra upp á eigin spýtur. Hlustarðu á íslensku í vinnunni? „Já, stundum útvarp,“ segir Amy. Hvað hlustarðu á í útvarpinu? „Rás tvö.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður