Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Fólk er komið með miklu meira en nóg“

26.01.2020 - 15:25
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ánægð með þá afdráttarlausu niðurstöðu félagsmanna sem starfa hjá Reykjavíkurborg að samþykkja vinnustöðvun. 95,5 prósent þeirra sem greiddu atkvæði styðja aðgerðirnar.

„Fólk er komið með miklu meira en nóg, veit sjálft hversu mikils virði það er og veit að það fær aldrei nálægt því fyrir vinnuna sína. Ég er stolt og ánægð með félagsmenn Eflingar í borginni,“ segir Sólveig Anna.

Sólveig segir deiluna snúast um verðmætamat og það hversu mikið borgin er tilbúin að greiða fólki fyrir að halda grunnkerfinu gangandi. Næsti samningafundur Eflingar og Reykjavíkurborgar er hjá ríkissáttasemjara á þriðjudag. Sólveig segist bjartsýn um framhaldið, en gangi ekki að semja verður fyrsti dagur verkfalls þann 4. febrúar.

„Ég veit að félagsmenn Eflingar hjá borginni skipta ótrúlega miklu máli, gegna undirstöðustörfum, svo ég trúi ekki öðru en að yfirvöld í borginni og borgarstjóri séu nú í óða önn að leita lausna. Við höfum lagt fram þær lausnir,“ segir Sólveig. Hún segir að ekki sé verið að fara út fyrir ramma lífskjarasamningana sem hún skrifaði sjálf undir í vor.

„Í þessu tilboði föllumst við á þær hækkanir sem um var samið í lífskjarasamningnum. En sökum þess að ástandið er óþolandi óbærilegt, förum jafnframt fram á leiðréttingu kjara fólksins okkar hjá borginni. Það er bara ekki hægt að bíða lengur.“