
Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning á tíunda tímanum í kvöld að um fimmtíu grindhvalir væru strandaðir í fjörunni við Útskálakirkju. Ljóst er að erfitt verður að bjarga dýrunum þar sem það fjarar fljótt undan þeim. Hópur fólks fór þó niður í fjöruna til að reyna bjarga einhverjum dýrum en mátti síðan lítils.
Skömmu fyrir miðnætti voru björgunarsveitarmenn frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu farnir að streyma að og þeirra fyrsta verkefni var að fjarlægja fólk úr fjörunni. Ingólfur segir það hafa gengið misvel enda séu miklar tilfinningar í spilinu. Hann segir að það megi alls ekki hreyfa dýrin og svo sé sýkingarhætta af þeim. Auk þess sé sjórinn orðinn rauður af blóði.
Hann segir að verkefnið hafi aðeins breyst því nú verði fyrst og fremst hugað að því að reyna halda dýrunum rökum. Björgunarsveitarmenn eigi von á fullt af dælum og meðal annars hafi verið haft samband við Brunavarnir Suðurnesja. Síðan verði reynt að koma dýrunum aftur út á haf þegar flæði að. Ingólfur treysti sér ekki til að segja hversu mörg dýr væru þegar dauð.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem stór hópur grindhvala strandar við Ísland. Fyrir hálfum mánuði drápust fimmtíu grindhvalir á Snæfellsnesi.