Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flytja úr gömlu Loftskeytastöðinni vegna myglu

11.03.2020 - 22:21
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / rúv
Flytja þurfti skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands úr rúmlega aldargömlu friðuðu húsi á Melunum vegna raka og myglu. Starfsfólk veiktist og flestir kvarta undan ólykt sem þangað koma. 

Friðað aldargamalt hús
Loftskeytastöðin á Melunum á sér langa og merkilega sögu. Þetta er eitt elsta steinsteypta hús borgarinnar, tekið í notkun árið 1918 og er friðað. Húsið þjónaði sem loftskeytastöð fyrir landið og miðin til ársins 1963. Árið 2015 afhenti Þjóðminjasafnið Háskóla Íslands húsið. Frá 2010 hefur Náttúruminjasafn Íslands leigt húsið af fyrir skrifstofu sína. En nú má þetta fornfræga kennileiti muna sinn fífil fegri. 

„Rakaskemmdir og myglusveppir“
Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands segir flesta kvarta undan ólykt sem koma inn í húsið. „Já, það eru rakaskemmdir og myglusveppir og nokkrar tegundir af ættkvíslinni sem eru mjög slæmar og í allt of miklu magni. Þetta fengum við endanlega staðfest fyrir hálfum mánuði eða svo og þurfum að rýma húsið einn, tveir og þrír. “
Hann segir þetta hafa haft áhrif á starfsfólkið. „Það hefur helst úr lestinni. Staðan er þannig að þrír hafast ekki við hérna inni og eru með heimastöðvar. Háskólinn skaut líka skjólshúsi yfir okkur.“

Finna torkennilega lykt
Lítill hluti safnkostins er geymdur ofan í kjallara og uppi í rjáfri.  Hilmar segir að það liggir fyrir að ráðast þurfi í viðgerðir á tréverki og múrverki bæði í þaki og útveggjum til að húsið sé hæft undir nokkra starfsemi. „Við höfum haft grun um að þetta hafi búið um sig býsna lengi og flestir sem koma hingað inn hafa fundið einhverja torkennilega lykt,“ segir Hilmar. 
Náttúruminjasafnið flytur nú skrifstofur sínar á Suðurlandsbraut í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá háskólanum er ástand bygginga skólans almennt gott en nú er verið að undirbúa viðhaldsframkvæmdir á húsinu.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV